Körfubolti

Einu frákasti frá átjándu þreföldu tvennunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Russell Westbrook í leiknum í nótt.
Russell Westbrook í leiknum í nótt. Vísir/AP
Russell Westbrook vantaði aðeins eitt frákast til að ná sinni átjándu þreföldu tvennu þetta tímabilið er lið hans, Oklahoma City Thunder, hafði betur gegn Chicago Bulls í NBA-deildinni í nótt, 109-94.

Westbrook var með 21 stig, fjórtán stoðsendingar og níu fráköst. Það er undir meðallagi hjá honum í vetur þar sem kappinn hefur að jafnaði skorað 31,4 stig í leik, tekið 10,6 fráköst og gefið 10,3 stoðsendingar.

Samtals eru Westbrook og James Harden, leikmaður Houston, með 27 þrefaldar tvennur í vetur en allir aðrir leikmenn í NBA-deildinni eru samanlagt með sautján þrefaldar tvennnur.

Jimmy Butler var afar ólíkum sjálfum sér vegna veikinda. Hann skoraði aðeins eitt stig og náði ekki að skora úr opnum leik í sex tilraunum. Chicago hafði unnið þrjá leiki í röð en átti í raun aldrei möguleika í nótt.

Oklahoma City er í sjöunda sæti vesturdeildarinnar en Chicago í níunda sæti í austrinu.



New Orleans vann New York Knicks, 110-96, þar sem Anthony Davis skoraði 40 stig og tók átján fráköst, þrátt fyrir að hafa farið meiddur í síðari hálfleik.

New York hefur nú tapað átta af síðustu níu leikjum sínum en Derrick Rose var ekki með af ókunnum ástæðum og Carmelo Anthony var rekinn af velli fyrir að rífast við dómara.



Minnesota vann Dallas, 101-92. Karl-Anthony Tomas var með 34 stig og ellefu fráköst fyrir Minnesota sem vann langþráðan sigur eftir fjóra tapleiki í röð.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×