Lífið

Einn virtasti trommari samtímans á leiðinni

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Benny Greb Benny er einn virtasti trommuleikari samtímans.
Benny Greb Benny er einn virtasti trommuleikari samtímans.
Einn vinsælasti og virtasti trommuleikari samtímans, Benny Greb, er á leið til Íslands og ætlar að miðla þekkingu sinni til íslenskra trommuleikara og halda fyrirlestur og sýnikennslu.

„Það er frábært að fá þennan snilling til landsins. Hann er mikið gæðablóð, með einstaklega skemmtilega kímnigáfu sem skilar sér vel í efninu sem hann gefur út. Hann er með skemmtilega og svakalega flotta trommumynddiska sem hafa hlotið verðskuldaða athygli,“ segir Skúli Arason, starfsmaður Tónastöðvarinnar sem stendur á bak við viðburðinn.

Greb kemur frá Þýskalandi og er einn eftirsóttasti námskeiðshaldari og fræðari í trommuheiminum. Hann hefur gefið út mynddiska og bækur sem hafa hlotið frábærar móttökur. „Hann mætir hér með sínar glæsilegu Sonor-trommur og sína eigin línu af Meinl-málmgjöllum. Hann mun fara yfir allt sem skiptir máli í listinni sem trommuleikur er, við hlökkum sannarlega til,“ bætir Skúli við. „Halldór Lárusson trommuleikari er búinn að hjálpa okkur að koma þessu á koppinn, enda er hann líka Meinl listamaður.“

Viðburðurinn fer fram í Hátíðarsal FÍH við Rauðagerði þann 18. júlí. Miðasala hefst í Tónastöðinni á morgun. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×