Innlent

Eigendum verði gert að sækja námskeið

Hundar með varðhundaeðli hafa gefist vel í höndum þeirra sem hafa vilja, getu og þekkingu til þess að fara með þá.
Hundar með varðhundaeðli hafa gefist vel í höndum þeirra sem hafa vilja, getu og þekkingu til þess að fara með þá.
Innflutningsbann á hunda af varðhundategundum leysir engan vanda. Þetta segir Halldór Runólfsson yfirdýralæknir, sem vill miklu fremur sjá að eigendum og kaupendum slíkra hunda verði gert skylt að sækja þar til gert námskeið með þá, ella fái þeir ekki leyfi til að halda þá.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að Rottweiler-hundur hefði bitið tólf ára stúlku fyrr í vikunni og hefði þurft að sauma sárið saman með sextán sporum. Hundinum hefur verið lógað. Framkvæmdastjóri Hundaræktarfélags Íslands, Valgerður Júlíusdóttir, velti þeirri hugmynd upp vegna atviksins hvort banna ætti tilteknar tegundir með varðhundaeðli hér.

„Það er orðið svo mikið af þessum hundum hér á landi að innflutningsbann er ekki svarið," segir yfirdýralæknir. „Þetta snýst fremur um að skilgreina og skylda þá sem mega halda dýr með varðhundaeðli til að sækja þar til gerð námskeið. Eigendur þeirra þurfa að hafa þekkingu, vilja og getu til að hafa stjórn á þeim og hugsa vel um þá. Hinum sem sneyddir eru þeirri ábyrgðarkennd sem til þarf yrðu þar með settar ákveðnar skorður með ákveðnum útfærslum."

Yfirdýralæknir segir sveitarfélögin geta sett sér samþykktir um að tilteknar hundategundir verði ekki leyfðar nema að því undangengnu að eigendur og kaupendur séu búnir að sækja námskeið hjá þar til bærum þjálfurum. Sveitarfélögin hefðu þá forgöngu um það í samvinnu við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna sem. Matvælastofnun gæti á hinn bóginn sett það skilyrði, þegar sótt væri um innflutning á þessum hundategundum, að leyfi fengist ekki nema innflytjandinn hefði sótt námskeið um meðferð þeirra.

Halldór kveðst gera skýran greinarmmun á svokölluðum árásarhundum og hundum með varðhundaeðli. Fyrrnefndu tegundirnar sé bannaðar hér á landi en síðarnefndu tegundirnar hafi gefist vel í höndum réttra eigenda.

Hann segir enn fremur að í ljósi nýlegra atvika þar sem hundar hafi bitið fólk þurfi Matvælastofnun í samvinnu við sveitarfélög og heilbrigðiseftirlit að koma hundahaldi í fastari farveg með hertum reglum og hafi það þegar verið rætt. Hann kveðst munu hafa forgöngu um framhald þess máls.

jss@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×