Lífið

"Ég get ekki lifað án þess að dansa“

Baldvin Þormóðsson skrifar
Klavs segir dansnámið á Íslandi hafa bætt sig til muna.
Klavs segir dansnámið á Íslandi hafa bætt sig til muna. mynd/sunneva ása weisshappel
„Mér standa allar dyr opnar en það er bara peningaleysi sem stendur í vegi fyrir mér,“ segir lettneski dansnemandinn Klavs Liepins en hann stundar nám í Listaháskóla Íslands og stefnir að því að útskrifast af dansbraut skólans árið 2016.

Klavs hefur átt í erfiðleikum með að fá námslán frá heimalandi sínu og vinnur því á næturnar til þess að eiga fyrir uppihaldskostnaði.

„Ég starfa sem dansari, danshöfundur og vinn sem barþjónn þar sem ég reyni að taka eins margar vaktir og ég get en launin duga bara fyrir leigu og mat,“ segir Klavs sem á því ekki nóg fyrir skólagjöldunum í Listaháskólann.

„Ég hef bara verið á Íslandi í eitt ár en Listaháskólinn hefur breytt mér og danstækninni svo mikið á stórkostlegan hátt,“ segir ungi dansarinn sem hóf dansferil sinn 19 ára gamall og hefur síðan stundað nám í þremur skólum en áður en hann kom til Íslands stundaði hann dansnám við Listaháskóla Lettlands.

„Ég get ekki lifað án þess að dansa og mig langar svo mikið til þess að halda áfram að læra hér.“

Klavs er virkilega áhugasamur um dansinn en auk þess semur hann tónlist og hefur verið í samstarfi við marga ólíka listamenn og vinnur mikið að svonefndum vídeóverkum þar sem hann semur dansinn fyrir verkið og tónlistina undir.

Hann fór af stað með hópsöfnun á netinu til þess að geta haldið áfram námi sínu í Listaháskólanum og geta áhugasamir kynnt sér hinn efnilega Klavs á heimasíðu Go Fund Me.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×