Innlent

Dýrkeypt mygla hjá Orkuveitunni sögð stafa af innbyggðum göllum í húsinu

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Skoða þarf undir alla klæðningu utanhúss í leit að myglu í miklum viðgerðum á höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur.
Skoða þarf undir alla klæðningu utanhúss í leit að myglu í miklum viðgerðum á höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur. Fréttablaðið/Stefán
Enn er ekki séð fyrir endann á umfangi skemmda vegna myglu í höfuðstöðvum Orkuveitunnar á Bæjarhálsi.

Eins og fram hefur komið hófust viðgerðir á Orkuveituhúsinu í sumar. „Í haust uppgötvuðust rakaskemmdir sem myndað höfðu myglusvepp í útveggjum aðalhússins. Þá var ráðist í að taka sýni víðsvegar um húsið til að meta umfangið,“ sagði í frétt OR um miðjan júní.

„Talið er að myglan stafi af ágöllum í húsinu sem suma hverja má rekja aftur að byggingartíma þess,“ segir Ólöf Snæhólm, upplýsingafulltrúi hjá Orkuveitunni. Húsið var tekið í notkun árið 2003.

„Meðal annars heldur veðurkápa hússins ekki almennilega vatni í slagveðri. Umfang skemmdanna er ekki að fullu vitað ennþá, verið er að kortleggja þær á sama tíma og verið er að framkvæma nauðsynlegar lagfæringar. Fyrsti áfangi framkvæmdanna er austurhlið hússins, eftir á að skoða hvort ástæða sé til að opna hinar hliðarnar,“ segir Ólöf.

Ólöf Snæhólm, upplýsingafulltrúi hjá Orkuveitu Reykjavíkur.
Að sögn Ólafar ná viðgerðirnar til allra hæða í húsinu. Meðal annars þarf af taka upp alla klæðningu utan á byggingunni til að kanna það sem undir er. „Það er verið að taka þetta báðum megin frá; bæði innan- og utanhúss,“ segir Ólöf. Nokkurt rask fyrir starfsemina fylgi framkvæmdunum. „En það er reynt að hafa það eins lítið og hægt er.“

Þar sem enn er eftir að kortleggja allar skemmdir í byggingunni eru áætlanir um kostnað og tímaramma ekki nákvæmar. Aðeins er sagt að framkvæmdirnar geti teygst fram á haustið 2017 og að kostnaðurinn muni hlaupa á hundruðum milljóna króna. Enn er óljóst hver greiðir fyrir verkið. Foss fasteignafélag keypti bygginguna af OR á árinu 2013. Félagið er meðal annars í eigu lífeyrissjóða.

Aðspurð segir Ólöf ekkert liggja fyrir alveg staðfest um það hvort myglan hafi haft áhrif á heilsu þeirra sem starfa í húsinu.

„Það hafa verið kvartanir frá starfsfólki en þetta er náttúrlega eins og er með mygluna; það er mjög erfitt að setja fingur á það hvort þetta sé af hennar völdum eða einhvers annars. En við tökum öllum slíkum tilkynningum mjög alvarlega,“ útskýrir Ólöf Snæhólm.

Í fyrrnefndri frétt OR var haft eftir Bjarna Bjarnasyni, forstjóra fyrirtækisins, að höfuðáhersla væri lögð á að tryggja starfsfólki heilsusamlegt vinnuumhverfi. „Nokkrir vinnufélaga okkar hafa fundið fyrir einkennum og við munum öll finna fyrir raskinu hér í húsinu sem fylgir framkvæmdunum næsta árið. Aðalatriðið er að ráða niðurlögum vandamálsins,“ var meðal annars haft eftir forstjóra OR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×