Innlent

Dularfullur fundur á Hendrix: Fíkniefnin reyndust kartöflumjöl

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Haukur Vagnsson skilur ekki neitt í neinu.
Haukur Vagnsson skilur ekki neitt í neinu. Vísir/Haukur/Arnþór
Á Hauk Vagnsson, eiganda skemmtistaðarins Hendrix, leita ótal margar spurningar eftir að hann fann að því er virtist talsvert magn af eiturlyfjum við tiltekt á skemmtistað sínum í morgun. Við nánari eftirgrennslan reyndist þó ekki um annað að ræða en kartöflumjöl og flórsykur. Það var staðfest af lögreglu sem kom á svæðið í dag að sögn Hauks.

„Ég veit ekkert hver tilgangurinn hefur verið, hvort að það hafi verið að láta einhvern sjá þetta og athuga hvort að það yrði eitthvað mál úr þessu,“ segir Haukur. „Ég svona hallast að því að þetta hafi verið eitthvað grín.“

Á myndinni má sjá pokana sem fundust á gólfinu á staðnum í dag.

Hann segir að af öryggismyndavélum komi í ljós hver hafi verið með gervi-eiturlyfin en hann þekki ekki einstaklinginn. Hann telur ólíklegt að haft verði samband við aðilann enda ekki ólöglegt að vera með flórsykur í poka á skemmtistöðum.

„Það er áhugavert að velta fyrir sér ástæðunum,“ segir Haukur sem skilur lítið í gríninu. Hann segist aldrei hafa lent í þessum aðstæðum áður, hvorki með raunveruleg efni né plat. „Við höfum blessunarlega verið laus við öll vandamál, við erum með góða og öfluga gæslu líka og svona.“

 

Mynd/Skjáskot



Fleiri fréttir

Sjá meira


×