Fótbolti

Drogba frétti að hann væri ekki í byrjunarliðinu og neitaði þá að spila

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Didier Drogba er meiri byrjunarliðsmaður.
Didier Drogba er meiri byrjunarliðsmaður. vísir/getty
Fílabeinsstrendingurinn Didier Drogba neitaði að spila afar mikilvægan leik með liði sínu Montreal Impact í MLS-deildinni í Bandaríkjunum þegar honum var sagt að hann myndi ekki vera í byrjunarliðinu.

Montreal gat tryggt sér sæti í úrslitakeppni MLS-deildarinnar með jafntefli gegn Toronto í gær en fyrir leikinn tilkynnti liðið á Twitter að Drogba yrði ekki með vegna bakmeiðsla. Það kom ekki að söm því liðin skildu jöfn, 2-2, og Montreal komst í úrslitakeppnina.

Mauro Biello, þjálfari Montreal Impact, nennti aftur á móti ekki að taka þátt í þessu meiðslaleikriti félagsins og staðfesti orðróminn um að Drogba vildi ekki spila eftir að honum var sagt að hann myndi koma inn af bekknum.

„Didier var ekki valinn í byrjunarliðið. Ég sagði honum það daginn fyrir leikinn en hann samþykkti ekki að koma inn af bekknum. Á endanum vildi hann ekki vera í 18 manna hópnum. Hann einfaldlega sætti sig ekki við að koma inn af bekknum,“ sagði Biello eftir leikinn.

„Hann var vissulega aumur í bakinu en hann gat spilað. Félagið þarf nú að leysa þetta mál,“ sagði Mauro Biello.

Drogba er í miklu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum Montreal en hann kom til liðsins á miðju tímabili í fyrra og skoraði tólf mörk í fjórtán leikjum. Hann er núna búinn að skora tíu mörk í 22 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×