Innlent

Davíð Þór fær brauð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Davíð Þór Jónsson.
Davíð Þór Jónsson. Vísir/Pjetur
Biskup Íslands hefur ákveðið að skipa Davíð Þór Jónsson, guðfræðing, í embætti héraðsprests í Austurlandsprófastsdæmi. Frestur til að sækja um embættið rann út 13. ágúst síðastliðinn. Frá þessu er greint á heimasíðu Þjóðkirkjunnar.

Davíð verður þar nafna sínum, Davíð Baldurssyni prófasti í Austurlandsprófastsdæmi, til halds og traust. Hann mun sinna afleysingum fyrir prófastinn og sinna ýmis konar færðslu í prófastsdæminu. 

Í Austurlandsprófastsdæmi eru níu prestaköll og að auki tilheyrir ein af sóknum Langanesprestakalls prófastsdæminu. Alls eru í prófastsdæminu 28 sóknir og sóknarkirkjur og tvær vígðar kirkjur til viðbótar. Íbúar í prófastsdæminu voru í lok árs 2010 10.285, þar af 8.772 í Þjóðkirkjunni eða 85,3% er fram kemur á vef Þjóðkirkjunnar.

Prestaköllin í Austurlandsprófastsdæmi eru: 
Hofsprestakall, Langanesprestakall, Egilsstaðaprestakall, Valþjófsstaðarprestakall, Djúpavogsprestakall, Eskifjarðarprestakall, Heydalaprestakall, Kolfreyjustaðarprestakall og Norðfjarðarprestakall.

Davíð Þór mun koma til með að sinna þjónustu og vitja sóknarbarna sinna í öllum prestaköllunum níu.

Tveir umsækjendur voru um embættið. Biskup Íslands skipar í embætti héraðsprests til fimm ára að fenginni umsögn héraðsnefndar í prófastsdæminu. Embættið veitist frá 1. nóvember 2014.

Davíð Þór hefur komið víða við bæði sem grínisti og útgefandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×