Innlent

David Cameron boðar hertar aðgerðir gegn barnamisnotkun

Birgir Olgeirsson skrifar
Vísir/AP
Bresk börn hafa mátt þola kynferðislega misnotkun á kerfisbundinn hátt vegna afskiptaleysi stjórnvalda. Þetta sagði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, á ráðstefnu sem haldin var vegna misnotkunar sem átti sér stað í Rotherham og Oxfordshire.

Hann sagðist ætla að taka hart á barnamisnotkun og sakaði borgara og stofnanir Bretlands um að hafa leitt vandann hjá sér. Boðaði hann að kennarar, leiðbeinendur og félagsráðgjafar á Englandi og í Wales gætu átt yfir höfði sér fimm ára fangelsisvist bregðist þeir ekki rétt við ef vaknar grunur um barnamisnotkun.

„Við þurfum að staldra við og viðurkenna þann hrylling sem hefur átt sér stað í landinu okkar,“ sagði Cameron. Nýlega var birt skýrsla þar sem kom fram að allt að 373 börn gætu hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í Oxfordshire síðastliðin sextán ár.

Rannsóknin kom í kjölfar réttarhalda yfir hópi sjö manna sem misnotuðu stúlkur í Oxford á tímabilinu 2004 til 2012. Rannsóknin leiddi í ljós röð mistaka af hálfu yfirvalda á svæðinu.

„Ungar stúlkur voru misnotaðar ítrekað, nauðgað og sendar á milli gerenda og án þess að nokkur gerði neitt. Við þurfum að binda endi á þetta og tryggja að þetta gerist ekki aftur,“ sagði Cameron og bætti við að ef fagfólk hunsar slík brot eigi að refsa því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×