Lífið

David Attenborough snýr aftur í Blue Planet 2

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
David Attenborough.
David Attenborough. vísir/epa
Hinn níræði sjónvarpsmaður, David Attenborough, sem getið hefur sér frægðar fyrir dýralífsþætti sína er hvergi nærri af baki dottinn, þrátt fyrir aldur. Nú er ljóst að hann mun taka þátt í gerð Blue Planet 2 þáttanna, sem framleiddir verða af þeim sömu og gerðu Planet Earth, Life og aðra margrómaða dýralífsþætti á vegum breska ríkissjónvarpsins. BBC greinir frá.

Hinn víðfrægi sjónvarpsmaður mun því birtast aftur á skjám heimsbúa í framhaldsseríu af Blue Planet þáttunum, þar sem hann mun talsetja og útskýra fyrir áhorfendum eins og honum einum er lagið. Gerð þáttanna hefur tekið fjögur ár og var dýralíf myndað í öllum höfum heimsins. 

Margir ættu að gleðjast en hár aldur sjónvarpsmannsins hefur valdið fólki áhyggjum, sumir töldu að hann væri orðinn of gamall til að taka þátt í gerð fleiri þáttasería.

Blue Planet serían einblíndi á dýralíf heimshafanna og kom hún út árið 2001. Það er því ljóst að tækninni hefur fleygt áfram en sem dæmi tókst framleiðendum að festa myndavélar á bak höfrunga og á það að gefa áður óséð skot inn í líf þeirra. 

Þættirnir verða sýndir síðar á þessu ári á BBC. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×