Fastir pennar

Dagbók ESB

Pawel Bartoszek skrifar
1. Ísland hringdi: „Hvað er að frétta? Er ekki alltaf að fjölga ríkjunum í ykkur? Hvernig er kreppan að fara með ykkur? Já, meðan við munum… Okkur langar að taka upp evru.“

„Allt í lagi, þið verðið þá að ganga í okkur.“

„Na… ebb… hmm. Okkur langar að taka evruna upp án þess að ganga í ykkur. Meira svona tvíhliða.“

„Nei, þið getið það ekki.“

„Ókei, en getum við tekið hana upp einhliða?“

„Einhliða þýðir náttúrlega: „einhliða.“ En, nei. Þið megið það ekki. Þið getið náttúrlega gengið í okkur. Eruð þið viss um að þið viljið ekki sækja um?“

„Hmm – hver veit. Kannski. En þið þurfið að breyta ýmsu hjá ykkur ef þetta á að ganga upp.“

„Nei, þetta virkar ekki alveg þannig. Það er eiginlega hugmyndin að umsóknarríkið…“

„Ókei bæ! Takk fyrir spjallið!“„…Halló?”



2. Ísland var að sækja um aðild að okkur. Gaman að því. Ísland virðist ekki vera ríki sem þarf að læra að klæða sig náttföt. Þetta verður ágætistilbreyting frá þessu Miðaustur-Evrópuævintýri sem við erum búin að standa í undanfarna áratugi. Loksins fær maður umsóknarríki sem stendur ekki í heimskulegri nafnadeilu við eitthvert okkar. Eða eitthvað svona eins og Kosovo sem helmingur okkar vill ekki einu sinni viðurkenna að sé til.

Svo er samkynhneigð kona forsætisráðherra hjá þeim. Og öll raforka þeirra er græn. Hversu svalt er það? Þetta verður bara gaman.

3. „Okkur langar að drepa selskópa með kylfum,“ sagði Ísland á fundi í dag. „Við viljum að þið aðlagið ykkur að því. Svo langar okkur að drepa hvali með sprengiefnum. Við erum tilbúnir til að leyfa ykkur að aðlaga ykkur að því.“

„En okkur langar ekkert til að leyfa ykkur að gera það…“ segjum við.

„Svo viljum við helst hafa tolla áfram í landbúnaði. Eiginlega viljum við ekki ganga í ESB svona landbúnaðarlega séð. Eiginlega viljum við hafa tolla alveg eins og þeir eru núna. Enga tolla á súrál. Massífa tolla á ost. Og útlendingar mega ekki eiga kvóta.“

„Þið getið ekki haft tolla á landbúnaðarvörum. Þið skiljið hvað orðin „sameiginlegur markaður“ þýða?“

„Já, en, en – við fáum engan til að samþykkja þetta ef við fáum ekki mjög góðan samning. Vitið þið ekki að ESB er ekki beint vinsælt á Íslandi um þessar mundir?“

„Sorrý, hver sótti eiginlega um hjá hverjum?“

4. Við kveikjum á sjónvarpinu. Ísland undirritar fríverslunarsamning við Kína. Sá fríverslunarsamningur fellur úr gildi ef Ísland gengur í okkur. Það er svolítið eins og þegar kærastinn flytur inn en heldur gömlu íbúðinni, svona ef ske kynni…

Síminn hringir. Ísland segist komið í pásu.

„Hvenær hættir þessi pása?“ spyrjum við.

„Það er ekki alveg ljóst. En við höldum ekki áfram án þess að halda þjóðaratkvæðagreiðslu.“

„Hvenær verður hún?“

„Hm, hvernig eigum við að segja þetta…aldrei.“

„Eruð þið þá alveg hætt við?“

„Nei, nei, ekki alveg,“ segir Ísland. „Okkur finnst þetta alveg fínt ástand í bili. Við fáum smá pening út úr þessu og það gengur fínt að fá fundi. Getum við ekki bara haft þetta svona í smátíma?“

Við svörum: „Við virðum ákvörðunarrétt ykkar og höfum skilning á afstöðu ykkar. En þolinmæði okkar er samt ekki endalaus.“ (Þýðing: „Þið hagið ykkur eins og smákrakkar.“)

Ísland virðist himinlifandi með svörin.

Þegar farið er á www.vidraedur.is er vísað á www.vidraedur2009-2013.is.

5. „Af hverju millifærðuð þið ekki á okkur?“ öskrar Ísland í símann: „Við erum umsóknarríki! Við ætluðum að nota peninginn til að bæta tölvukerfi Hagstofunnar. Hver á nú að borga fyrir það?“

„Ja, þið virkuðuð ekki mjög áhugasöm. Við kunnum alveg að lesa blöðin.“

„Þetta er búið hjá okkur,“ segir Ísland.

„Eruð þið þá hætt við að ganga í okkur?“

„Nei, þið voruð að dömpa okkur, með þessari hegðun.“

„Nei, við vorum ekki að því.“

„Æ,“ segir Ísland pirrað. „Getið þið ekki sagst hafa dömpað okkur? Það væri betra fyrir okkur.“

„Nei.“

Löng þögn.

„Þið skuldið okkur pening,“ segir Ísland að lokum.






×