Innlent

Dæmdur í gæsluvarðhald vegna gruns um ítrekuð brot gegn mæðgum

Birgir Olgeirsson skrifar
Maðurinn er ákærður fyrir grófar hótanir og kynferðislega áreitni.
Maðurinn er ákærður fyrir grófar hótanir og kynferðislega áreitni. Vísir/GVA
Hæstiréttur hefur dæmt karlmann í áframhaldandi gæsluvarðhald sem grunaður er um ítrekuð brot gegn eiginkonu sinni og stjúpdætrum sínum. Mun maðurinn sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, en þó ekki lengur en til fimmtudagsins 22. september næstkomandi.

Manninum hafði áður verið gert að sæta nálgunarbanni en hann braut ítrekað gegn því. Hann var fyrst látinn sæta nálgunarbanni 7. mars síðastliðinn, aftur 4. apríl og svo 2. maí síðastliðinn.

Þann 1. júní síðastliðinn hafði önnur af stjúpdætrum hans samband við lögreglu í miklu uppnámi og kvaðst hrædd um líf sitt. Hún var þá nýkomin til vinnu og sagði manninn hafa verið kominn með enn eitt símanúmerið og hafi verið að brjóta nálgunarbannið með því að senda henni líflátshótanir í smáskilaboðum.

Skömmu síðar hafði hafði hin dóttirin samband við lögreglu frá heimili sínu og sagði manninn hafa sent henni hótanir úr nýju símanúmeri. Hann var handtekinn vegna þess og úrskurðaður í gæsluvarðhald 2. júní síðastliðinn.

Í ákæruskjali er manninum gefið að sök að hafa ítrekað brotið gegn nálgunarbanni meðal annars með sendingu smáskilaboða sem innihalda grófar hótanir og kynferðislega áreitni í garð stjúpdætra sinna.

Að mati ákæruvaldsins eru yfirgnæfandi líkur á því að maðurinn haldi áfram afbrotum gangi hann frjáls ferða sinna. Hann hafi sýnt einbeittan brotavilja og ekki látið af háttsemi sinni þrátt fyrir ítrekuð afskipti lögreglu og fyrirmæli þar um. Þá hafi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu upplýst að ákærði hefur reynt að senda brotaþolum í málinu bréf en fangelsisyfirvöld sendu mæðgunum ekki bréfin heldur voru þau send til lögreglu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×