Innlent

Dæmdur fyrir að bera sig fyrir framan níu ára drengi

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty
Karlmaður var nýverið dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir að særa blygðunarsemi níu ára drengja með því að standa nakinn að neðan í svaladyrum sínum. Honum var gefið að sök að hafa staðið þar í bol einum klæða og strokið á sér getnaðarliminn, svo drengirnir sæju. Ekki þótti hægt að sanna það þar sem aðeins einn af þremur vitnum „kvaðst hafa séð ákærða „fara einu sinni í hann“,“ eins og segir í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur.

Maðurinn hefur áður verið dæmdur fyrir blygðunarsemisbrot.

Sagðist hafa verið léttklæddur út í glugga

Faðir níu ára drengs hafði samband við lögreglu þann 11. nóvember 2012 og sagði son sinn hafa séð nakið barn inn um glugga mannsins. Lögreglumenn fóru og ræddu við manninn og í skýrslu þeirra sögðu þeir að hann hefði verið „mjög flóttalegur“. Hann kannaðist við að hafa verið léttklæddur út í glugga.

Faðir drengsins stöðvaði lögreglumennina þegar þeir voru að fara og sagði son sinn og tvo vini hans hafa séð hann standa út í glugga og fróa sér.

Tveir drengjanna voru yfirheyrðir fyrir dómi, en annar þeirra sagðist hafa séð tippið á manninum en kvaðst ekki hafa séð hann gera neitt við það. Hinn drengurinn sagðist hafa verið að ganga í skólann með vinum sínum þegar maðurinn hafi komið út um svalahurð íbúðar sinnar, aðeins klæddur í stuttermabol. Þá hafi hann verið að fikta í tippinu á sér.

Við yfirheyrslur lögreglu neitaði maðurinn sök en kannaðist við hafa verið léttklæddur heima hjá sér þann dag. Hann sagðist hafa verið í bol og stuttbuxum.

Fór í buxur til að ræða við nágranna sinn

Maðurinn ítrekaði neitun sína við aðalmeðferð. Hann sagðist hafa verið í nærskyrtu og stuttbuxum þegar nágranni hans hefði birst við dyrnar hjá sér. Hann sagði nágrannan hafa verið mjög reiðan og þegar hann kom sagði maðurinn hafa farið inn í svefnherbergi og klætt sig í buxur.

„Þetta hafi hann gert til að geta mætt nágranna sínum á jafnréttisgrundvelli.“ Þá kannaðist hann ekki við að hafa séð umrædda drengi og neitaði að hafa þuklað á sér liminn í svaladyrunum.

Faðir eins drengsins sagði son sinn hafa komið til sín og sagst ekki vilja leika sér lengur. Þar sem vinirnir hafi verið „fyrir framan kallinn“. Faðirinn sagðist þá hafa vitað um hvað málið snerist og spurt son sinn hvort að ákærði hafi verið úti í glugga. Því hafi sonur hans játað.

Faðirinn fór þá að íbúð mannsins og sagðist hafa séð hann standa í svalagættinni í nærbol en ber að neðan. Hann sagðist hafa séð kynfæri mannsins, en sá hafi ekki snert þau. Þá sagðist faðirinn hafa látið manninn heyra það og hefði hann þá farið og klætt sig í buxur.

Þriðja brotið á þremur árum

Maðurinn var sakfelldur fyrir að særa blygðunarsemi drengjanna með því að standa nakinn í svalagættinni. Ekki þótti þó sannað að hann hafi strokið á sér getnaðarliminn þar sem aðeins eitt vitni hafði orð á því. Maðurinn var því sýknaður af því.

Hann var dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir blygðunarsemisbrot 25. febrúar 2011 og var sá dómur staðfestur af Hæstarétti. Maðurinn rauf skilorð og var dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir blygðunarsemisbrot 8. febrúar 2013.

Að þessu sinni var hann dæmdur í tveggja mánaða fangelsi og gert að greiða 150.600 krónur í málskostnað.

Dóminn má sjá hér á heimasíðu héraðsdóms.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×