Körfubolti

Byrjunarlið Cavaliers dýrara en leikmannahópur Warriors

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
LeBron JAmes og JR Smith.
LeBron JAmes og JR Smith. Vísir/Getty
Eftir að NBA-meistararnir í Cleveland Cavaliers gengu frá nýjum fjögurra ára samning við J.R. Smith um helgina er ljóst að byrjunarlið félagsins er það dýrasta í sögu NBA-deildarinnar.

Leikmennirnir fimm sem munu ef allt er eðlilegt skipa byrjunarlið meistaranna fá samtals 100 milljónir dollara í tekjur þetta tímabilið.

Þetta eru þeir LeBron James, Kyrie Irving, Kevin Love, Tristan Thompson og Smith.

Launaþakið í NBA-deildinni er 94 milljónir dollara þetta tímabilið en það er fyrir allan leikmannahópinn. Öllum liðum er heimilt að fara yfir launþakið en greiða fyrir það svokallaðan lúxusskatt.

Enn er óljóst hvað eigendur Cavaliers munu greiða í laun og lúxusskatt þetta tímabilið en líklegt er að það verði ekki undir 160 milljónum dollara.

Sjá einnig: NBA-meistararnir náðu loksins samningum við J.R.

Dan Gilbert, sem keypti félagið fyrir áratug síðan, hefur ávallt sagt að hann ætli að gera allt sem hann geti til að færa borginni meistaratitil og það gerði hann á síðustu leiktíð, er hann borgaði samtals 54 milljónir dollara í lúxusskatt.

Hann virðist því engan veginn vera hættur og hefur bætt í, miðað við nýjasta samninginn við J.R. Smith. Til samanburðar má nefna að byrjunarliðið hjá Cleveland kostar meira en allur leikmannahópur átján liða í NBA-deildinni.

Í þeim hópi eru fyrrum meistararnir í Golden State Warriors sem hefur þó bætt Kevin Durant í sinn leikmannahóp. Byrjunarlið Warriors kostar um 73 milljónir dollara.

Nýtt keppnistímabil í NBA-deildinni hefst í lok mánaðarins en fyrsta beina útsending vetrarins á Stöð 2 Sport verður frá leik Cleveland Cavaliers og Toronto Raptors þann 28. október.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×