Innlent

Pilsið skorið af konunni í karlaklefanum

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér má sjá skiltið, eftir breytingu.
Hér má sjá skiltið, eftir breytingu.
Skiltinu á herbergi, sem ætlað er fyrir feður til að skipta á börnum sínum í karlaklefanum í Laugardalslaug, hefur verið breytt. Fyrr í dag sagði Vísir frá því að á skiltinu í karlaklefanum væri mynd af konu að skipta á barni sínu, en ekki karli.

Segja má að konunni á skiltinu hafi verið breytt í karl, því pilsið var hreinlega skorið af henni. Logi Sigurfinnsson, forstöðumaður Laugardalslaugar, segir að þessar breytingar séu til bráðabirgða. „Við erum búin að panta nýtt skilti og á meðan það er á leiðinni ákváðum við bara að ganga beint til verks og breyta þessu bara strax.“

Í frétt Vísis, frá því fyrr í dag, sagðist Logi ekki hafa vitað að á skiltinu á herberginu sem ætlað er til bleiuskiptinga, hafi verið mynd af konu. Hans fólk brást því mjög fljótt við.

Ingólfur V. Gíslason, félagsfræðingur sem hefur fjallað mikið um jafnréttismál, sagði við Vísi fyrr í dag að hann væri fyrst og fremst ánægður að herbergi ætlað til bleiuskipta væri inni í karlaklefanum. Hann sagði að Jafnréttisráð hafi látið framkvæma könnun á slíkri aðstöðu í sjoppum við þjóðveginn. Niðurstöður hennar sýndu að sjaldan var aðstaða fyrir karlmenn að skipta á börnum sínum.

„Mér finnst eiginlega bara fyndið að menn skuli svo hafa notað þessa merkingu. Ég á líka ekki von á að pabbarnir láti það eitthvað hindra sig. Þannig að auðvitað er fínt að þeir lagi þetta en aðallega er jákvætt að sundlaugarnar hafi aðstöðuna báðum megin,“ sagði Ingólfur fyrr í dag.

Þessi mynd birtist með frétt Vísis í morgun.
.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×