Lífið

Búdrýgindabræðurnir takast á loft

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Hér eru þeir Magnús Ágústsson með míkrófóninn og Axel Haraldsson með trommukjuðana í flugstjórnarklefa í Boeing 757 þotu Icelandair. Maggi var á leið til Alaska og Axel til Toronto þegar myndin var tekin.
Hér eru þeir Magnús Ágústsson með míkrófóninn og Axel Haraldsson með trommukjuðana í flugstjórnarklefa í Boeing 757 þotu Icelandair. Maggi var á leið til Alaska og Axel til Toronto þegar myndin var tekin. mynd/ólafur axel
Félagarnir Axel Haraldsson og Magnús Ágústsson eru líklega best þekktir fyrir að starfa saman á tónlistarsviðinu og eru saman í hljómsveitinni Búdrýgindum. Um þessar mundir starfa þeir þó saman á öðru sviði, við að stýra þotum Icelandair.

Báðir hófu þeir flugnám sumarið 2003 og tóku svokallað sólópróf 16 ára gamlir. Haustið eftir voru þeir skráðir á bóklegt einkaflugmannsnámskeið hjá Flugskóla Íslands. „Við máttum báðir fljúga flugvélum einir áður en við höfðum tekið fyrsta ökutímann. Ég man að fermingarpeningarnir mínir dugðu nokkurn veginn fyrir sólóprófinu, ég stórefa það að fermingargjafaverðbólgan hafi haldið í við verðhækkun á flugnámi síðustu ár,“ segir trommuleikarinn og flugmaðurinn Axel. Hann er einnig trommuleikari Hjaltalín.

Axel Haraldsson fékk áhuga á flugi mjög snemma enda er faðir hans flugmaður og var hann duglegur að fara með soninn í flugferðir.
Komust inn hjá Icelandair

Búdrýgindabræðurnir söfnuðu flugtímum með menntaskóla og drifu sig svo í atvinnuflugið strax eftir MH. „Við vorum að klára atvinnuflugið haustið 2008 þegar flugbransinn á Íslandi hrundi ásamt flestu öðru svo við drifum okkur á fyrsta flugkennaranámskeið sem flugfélagið Geirfugl hélt og byrjuðum svo báðir að kenna hjá Flugakademíu Keilis sem var þá tiltölulega nýstofnað batterí. Ég byrjaði 2009 og svo byrjaði Axel 2010 eftir að hafa túrað um Evrópu stærstan part 2009 með hljómsveitinni Hjaltalín,“ segir söngvarinn og flugmaðurinn Magnús. 

Þeir hafa því lifað og hrærst í flugheiminum frá því að þeir voru 16 ára. „Við unnum báðir sem hlaðmenn með menntaskóla og ég vann sem flugumsjónarmaður og Axel var þrjú sumur hjá flugfélaginu Mýflugi í útsýnis- og leiguflugi,“ bætir Maggi við.

Búdrýgindi í Íslandi í dag árið 2002.

Í sumar starfa þeir sem flugmenn hjá Icelandair en þetta er annað sumarið sem þeir starfa þar.

„Við komumst inn hjá Icelandair í annarri tilraun, báðir með u.þ.b. 1.500 flugtíma, og fögnuðum með smá viskídreitli sama kvöld og símtalið kom, sem var tveimur dögum fyrir jólin 2013. Við vorum svo settir á 5-6 vikna bóklegt námskeið og þar sem við vorum með mjög svipaða reynslu vorum við paraðir saman í flughermisþjálfun í Kaupmannahöfn og Finnlandi þar sem við vorum í 18 daga að læra og æfa allt sem viðkemur því að fljúga Boeing 757,“ útskýrir Maggi. 

Magnús Ágústsson var einnig duglegur að fara með föður sínum í flugferðir og varð strax staðráðinn í að verða flugmaður.
Gaman að fljúga með pabba

Feður þeirra, Haraldur Baldursson og Ágúst Jóel Magnússon, starfa báðir sem flugstjórar hjá Icelandair. Krókurinn beygðist augljóslega snemma hjá Axel og Magga, enda ólust þeir báðir upp í kringum flug og flugvélar. Axel kynnist fluginu í gegnum pabba sinn enda voru alltaf til flugvélamódel af Flugleiðavélum, flugblöð og VHS-spólur með flugefni heima hjá honum.

„Þegar ég var 9 til 12 ára fékk ég oft að sitja í flugstjórnarklefanum hjá pabba þegar hann var flugstjóri innanlands á Fokker 50 og ég gat ekki hugsað mér að gera neitt annað í lífinu. Flugtölvuleikir áttu líka stóran þátt,“ segir Axel. Maggi tekur í sama streng.

„Pabbi var á kafi í sport- og svifflugi og var duglegur að taka mig með þegar ég var lítill. Það leiddi til þess að mér fannst ekkert annað koma til greina,“ bætir Maggi við.

Lagið Spilafíkill naut mikilla vinsælda.

Báðir hafa þeir flogið með feðrum sínum hjá Icelandair. 

„Við höfum báðir flogið með feðrum okkar sem var að sjálfsögðu skemmtileg upplifun og eitthvað sem við höfðum hlakkað til lengi en á sama tíma líka pínu öðruvísi þar sem maður er óvanur því að þekkja flugstjórann svona rosalega vel. Annars er eitt af því skemmtilega við þennan vinnustað að maður flýgur með fullt af færu og skemmtilegu fólki, bæði konum og körlum. Einn daginn er maður kannski að fljúga með flugstjóra sem getur sagt manni allt um fluguveiðar og svo næsta dag er maður kannski með flugstjóra sem veit allt um jeppabreytingar,“ útskýrir Axel.

Hljómsveitin Búdrýgindi var vinsæl á sínum tíma. Hún vann Músíktilraunir 2002.mynd/anton brink
Orðnir ákveðnir 10 ára gamlir

Þeir segja þó að engin pressa hafi verið á þeim um að gerast flugmenn. „Það var engin pressa á hvorugan okkar að verða flugmenn heldur var þetta bara eitthvað sem við ákváðum sjálfir. Þetta er bara eins og með tónlistarfólk, lækna og fleiri stéttir þar sem börn taka oft upp á því að gera það sama og foreldrar þeirra enda kynnast þau þeim störfum og lífsstíl best,“ bætir Maggi við.

Axel og Maggi kynntust þegar þeir voru tíu ára gamlir og urðu fljótt góðir vinir. „Maggi flutti í hverfið okkar í Kópavoginum þegar við vorum 10 ára og þá vorum við báðir búnir að ákveða það að verða flugmenn. Maggi byrjaði svo í skólanum okkar, Kópavogsskóla, í 7. bekk og þegar fyrsti söngvari Búdrýginda hætti árið 2000 þá var Maggi tekinn inn í hljómsveitina,“ segir Axel um upphaf vinskaparins og tónlistarsamstarfsins.

Búdrýgindi unnu Músíktilraunir 2002, sveitin var einnig valin Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum sama ár og hefur gefið út tvær plötur, Kúbakól árið 2002 og plötuna Juxtapos 2004.

Snúa Búdrýgindi aftur?

Búdrýgindabræðurnir segja flug- og tónlistarbransann ekki svo ólíka. „Í báðum tilvikum er um að ræða fólk með mikla ástríðu fyrir því sem það er að gera og sem er tilbúið að selja sálu sína til að fá stóra tækifærið og það hefur margsannað sig í bæði tónlistinni og fluginu að ef þú virkilega ætlar þér hlutina þá munu þeir gerast þótt það geti auðvitað tekið mislangan tíma hjá fólki,“ segir Axel.

Þó svo að hljómsveitin Búdrýgindi hafi lítið komið fram á undanförnum árum þá hefur hún aldrei hætt.

Sigga-La-Fó var einn af vinsælustu smellum sveitarinnar.

„Við hættum aldrei offisjallí og við erum ennþá allir bestu vinir og erum duglegir að hittast en ekki nógu duglegir að spila. Axel og Viktor eru reyndar alltaf í hljómsveitinni Hjaltalín en það nær ekki að svala pönkþorstanum svo það er aldrei að vita hvort við gerum eitthvað meira í framtíðinni,“ útskýrir Maggi. Axel bætir við: 

„Við munum að öllum líkindum spila saman á tónleikum í ágúst sem verða kynntir síðar. Eina vitið væri auðvitað að fara tónleikaferð í kringum landið á flugvélum. Kannski að RÚV vilji gera þátt um það sem myndi fjalla um „has-been“ unglingahljómsveitina Búdrýgindi sem er að reyna að koma sér aftur á framfæri með því að spila á flugvöllum í bæjarfélögum á Íslandi. Gæti heitið „Búni 1“. Við vorum eiginlega aldrei nógu kærulausir til að geta orðið alvöru rokkstjörnur,“ segir Axel og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×