Innlent

Brýnt að bæta stöðu aldraðra hér á landi

Siv Friðleifsdóttir, formaður velferðarnefndar, Helgi Hjörvar, forseti Norðurlandaráðs, og Álfheiður Ingadóttir varaforseti kynntu dagskrá þingsins fyrir blaðamönnum í gær. fréttablaðið/gva
Siv Friðleifsdóttir, formaður velferðarnefndar, Helgi Hjörvar, forseti Norðurlandaráðs, og Álfheiður Ingadóttir varaforseti kynntu dagskrá þingsins fyrir blaðamönnum í gær. fréttablaðið/gva
Þing Norðurlandaráðs verður sett í dag klukkan 14.30 á Grand Hóteli í Reykjavík. Alls eru 35 erlendir ráðherrar nú staddir hér á landi til þess að sitja þingið ásamt um 600 fjölmörgum embættismönnum og almennum starfsmönnum.

Siv Friðleifsdóttir, formaður velferðarnefndar Norðurlandaráðs, segir eitt af mikilvægustu málunum vera aðstæður aldraðra og hvernig hægt sé að bæta þær hér á landi.

Um fimmtíu prósenta líkur eru á því að stúlkubarn sem fæðist í dag hér á landi nái hundrað ára aldri. Frá árinu 1950 hefur fjöldi þeirra sem ná 80 ára aldri fjórfaldast og segir Siv að Ísland standi ekki eins vel að vígi í heimahlynningu þeirra miðað við hin Norðurlöndin.

„Við erum að þjónusta í of miklum mæli inni á hjúkrunarheimilum,“ segir Siv. „Á Íslandi eru næstflest rými fyrir 65 ára og eldri, þau eru flest í Svíþjóð, og meðallegutími á hjúkrunarheimilum á Íslandi eru 3,3 ár. Á hinum Norðurlöndunum er meðallegutími á hjúkrunarheimilum tvö ár. Þetta er gríðarlegur munur.“

Siv segir þetta sýna að Íslendingar þjónusti fólk of lítið heima við og fólk fari of snemma inn á hjúkrunarheimili. „Það er búið að reikna út að eitt hjúkrunarheimili kostar 7,8 milljónir hér á Íslandi. Þú getur þjónustað manneskju heima með 25 skiptum á viku fyrir sama pening, fyrir heimahjúkrun, eða þrisvar sinnum á dag,“ segir Siv. „Allar samanburðartölur við Norðurlöndin sýna okkur svart á hvítu að við verðum að stórauka þjónustuna heima. Það er ekki eldri borgurum í hag að fara of snemma inn á hjúkrunarheimili.“

Norðurlandaráðsþingið stendur fram á fimmtudagskvöld. Kostnaður Íslands við það er um 40 milljónir króna, en það er sama upphæð og fyrir fimm árum þegar Norðurlandaráðsþingið var síðast haldið hér á landi.

Helgi Hjörvar, forseti Norðurlandaráðs, segir afar mikilvægt að efla samstarf Norðurlandanna enn frekar og bendir á að tillögur Gunnars Wetterberg um Sambandsríki Norðurlandanna sé áhugaverð hugmynd sem vert sé að skoða.

sunna@frettabladid.is


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×