Innlent

Brynjar Níelsson afneitar bróður sínum

Jakob Bjarnar skrifar
Bræður? Þegar rýnt er í þessa mynd virðist sem svipur sé með þeim en áhöld eru uppi um hvort þeir Brynjar og Gústaf eru blóðbræður.
Bræður? Þegar rýnt er í þessa mynd virðist sem svipur sé með þeim en áhöld eru uppi um hvort þeir Brynjar og Gústaf eru blóðbræður.
Gústaf Níelsson sagnfræðingur kærði Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur stjórnsýslufræðing til siðanefndar HÍ vegna skrifa hennar. Málið komist í fréttir og hefur DV fjallað skilmerkilega um það. Brynjar Níelsson þingmaður, bróðir Gústafs, segir þá ekki klikka á þeim bænum -- alltaf þegar málið sé til umfjöllunar er tekið fram að þeir tveir séu bræður. Brynjar furðar sig á því að blaðamenn DV telji sig þurfa að koma því að þessu með bróðernið þó innihald fréttarinnar hafi ekkert með sig að gera. Og Brynjar bætir um betur í orðsendingu sem hann setur á Facebook:

„Svo eru áhöld um það hvort Gústaf sé raunverulega bróðir minn. Sögur hafa gengið um að hann sé tökubarn og faðir minn heitinn hafi fundið hann á ferðalagi einhvers staðar í austurlöndum nær, sennilega nálægt Beirút. Sel það þó ekki dýrara en ég keypti.“

„Þetta er misskilningur hjá Brynjari,“ segir Gústaf en Vísir náði í hann um það bil sem hann var að stíga upp í flugvél, á leið til Spánar. „Kenningin gengur út á það ég hafi fundist á sorphaugum í sígaunahverfi á Ítalíu. En, fræðimenn greinir á um þetta.“

Vert er að geta þess að miðað við tóninn í þeim bræðrum virðist sem þeim sé fremur skemmt yfir þessum bollaleggingum en hitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×