Lífið

Brotist inn hjá Sigtryggi Baldurssyni

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Sigtryggur hvetur þjófanna til þess að skila hlutunum.
Sigtryggur hvetur þjófanna til þess að skila hlutunum. Vísir/Arnþór
Brotist var inn í hljóðver Sigtryggs Baldurssonar trommuleikara á dögunum og þaðan stolið mjög verðmætum hlutum. „Þeir tóku conga-trommurnar mínar, tölvuna, monitora og líka Ludwig Black Beauty sneriltrommuna mína,“ segir Sigtryggur.

Umrædd sneriltromma sem þjófarnir stálu, Ludwig Black Beauty Super Sensitive sem er módel 1974, er jafnframt eina slíka tromman sem til er á landinu. „Tölvur eru tölvur, monitorar eru monitorar en hljóðfærin manns eru alltaf persónulegir hlutir. Þetta er uppáhaldssnerillinn minn og er ég miður mín,“ bætir Sigtryggur við.



Hér er Ludwig Black Beauty Super Sensitive sneriltromman og conga-trommurnar sem þjófarnir stálu.
Þjófarnir tóku einnig fleiri verðmæta hluti eins og mixer og annan upptökubúnað.

Hljóðverið er til húsa í Kópavogi og hvetur Sigtryggur þjófana til þess að gefa sig fram.

„Ég þekki conga-trommurnar og ég þekki alla þessa hluti sem þeir tóku. Allt tónlistarmannasamfélagið á Íslandi mun komast að þessu þannig að ég hvet þessa aðila til að gefa sig fram og skila þessu. Ég vil mælast til þess að téðir þjófar skili þessum hljóðfærum að minnsta kosti, því þeir geta ekki losnað við þetta, þau þekkjast alls staðar. Ég er í símaskránni ef fólk verður einhvers áskynja,“ segir Sigtryggur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×