Innlent

Breskt fyrirtæki kvartaði til ráðherra vegna Iceland Express

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Bresk ferðaskrifstofa fann sig knúna til að kvarta til Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra vegna lélegra vinnubragða og framferðis Iceland Express og hvetur ráðuneytið til að rannsaka starfshætti fyrirtækisins.

Í bréfinu til Katrínar segir Clive Stacey, framkvæmdastjóri bresku ferðaskrifstofunnar Discover The World, að hann hafi aldrei í 26 ára sögu fyrirtækisins þurft að skrifa til íslenskra stjórnvalda vegna framferðis íslensks fyrirtækis. Hins vegar hafi framferði Iceland Express komið óorði á góða ímynd íslenskrar ferðaþjónustu.

Stacey segir að á undanförnum tveimur árum hafi viðskiptavinir ferðaskrifstofunnar fundið fyrir afar miklum óþægindum vegna fyrirtækisins. Fjölmörgum flugferðum hafi verið aflýst, mörgum með afar litlum fyrirvara. Þá hafi vegna slæmrar skipulagningar of mörgum flugferðum verið seinkað. Þá hafi flugvélar millilent á áfangastöðum eins og París án nokkurs fyrirvara sem hafi valdið farþegum miklum óþægindum.

Jafnframt hafi engum skýringum verið til að dreifa frá Iceland Express eða fulltrúum fyrirtækisins eða þær verið ófullnægjandi.



Erfitt að sætta sig við framferði Iceland Express


„Þetta síðasta ár hefur verið óvenjulega erfitt. Ég geri mér auðvitað grein fyrir að ýmis vandamál komu upp í tengslum við gosið í Eyjafjallajökli. Við höfum fullan skilning á slíku en ég verð að segja að þótt maður undanskilji það hefur framferði Iceland Express gert það að verkum að það er mjög erfitt að sætta sig við það," segir Stacy.

Stacy tiltekur í bréfi sínu að fyrirtækið hafi nú hætt að selja ferðir með vélum Iceland Express en margir viðskiptavinir eigi bókuð sæti með fyrirtækinu á næstunni. Því biður hann iðnaðarráðuneytið að rannsaka afar vafasama starfshætti fyrirtækisins.

Fréttastofa reyndi ítrekað að ná tali af Matthíasi Imsland forstjóra Iceland Express til að fá viðbrögð, en hann svaraði ekki skilaboðum fréttastofu.

Rétt fyrir fréttatímann í kvöld náðist loksins í Matthías Imsland, forstjóra Iceland Express. Hann segir að Iceland Express eigi í ágreiningi við Discover The World. Meðal annars hafi fyrirtækið ekki greitt reikninga frá Iceland Express. Skoða verði ásakanir fyrirsvarsmanna fyrirtækisins í ljósi þessa ágreinings.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×