Innlent

Borgin sker upp herör gegn ágengum plöntum

Atli Ísleifsson skrifar
Bjarnarkló.
Bjarnarkló. Mynd/reykjavíkurborg
Reykjavíkurborg hefur ákveðið að skera upp herör gegn útbreiðslu trölla-, húna- og bjarnarklóa í Reykjavík.

Í frétt á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að plönturnar hafi sýnt sig vera ágengar og geti breiðst hratt út í borgarlandinu. „Plönturnar eru varasamar því þær innihalda efnasambönd sem geta valdið alvarlegum bruna á húð með sólarljósi.

Í sumar hefur verið unnið að því að kortleggja útbreiðslu platnanna en að því loknu verður unnin aðgerðaráætlun og útbúið fræðsluefni um hvernig best sé að bregðast við vandanum.

Borgarbúar eru hvattir til að senda Reykjavíkurborg ábendingar um fundarstaði.“

Plönturnar eru af ættkvíslinni Heracleum en fundist hafa þrjár tegundir sem ganga undir ýmsum nöfnum en samkvæmt íslenskri málstöð nefnast þær: bjarnarkló (H. mantegazzianum), tröllakló (H. persicum) og húnakló (H. sphondylium).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×