Innlent

Borgin greiddi yfir hundrað milljónir í ferðakostnað

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. vísir/stefán
Starfsmenn og kjörnir fulltrúar Reykjavíkurborgar ferðuðust erlendis fyrir 21,4 milljónir króna á árinu 2015. Sé ferðakostnaður allra fyrirtækja borgarinnar og sviða hennar lagður saman nemur hann 121,3 milljónum króna.

Á fundi borgarráðs í gær var lagt fram yfirlit yfir heildarkostnað borgarinnar vegna utanlandsferða. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fór í níu ferðir á árinu 2015 sem kostaði borgina rúmar 2,6 milljónir króna.

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er eini borgarfulltrúinn sem ferðaðist fyrir meira en milljón. Sigurður Björn Blöndal, borgarfulltrúi Bjartrar framtíðar og formaður borgarráðs, fór fyrir tæpa milljón og Jóna Björg Sætran, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, ferðaðist fyrir um 870 þúsund. Alls ferðuðust kjörnir fulltrúar fyrir 12 milljónir króna.

Náms- og kynnisferð borgarfulltrúa til Alberta í Kanada var langdýrasta ferðin því þau Marta Guðjónsdóttir og Kjartan Magnússon, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, Jóna Björg Sætran og Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, fengu öll 591 þúsund fyrir þessa einu ferð. Alls kostaði ferðin borgina um þrjár milljónir króna.

Ofurkostnaður Orkuveitunnar

Heildarkostnaður embættismanna nam 9,2 milljónum króna. Þar sker Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs, sig úr en hún ferðaðist fyrir 2,2 milljónir króna. Óskar Jörgen Sandholt, skrifstofustjóri þjónustu og reksturs, fór utan fyrir tæpar tvær milljónir og Hrólfur Jónsson, skrifstofustjóri eigna og atvinnuþróunar, ferðaðist fyrir 1,3 milljónir.

Yfirlit yfir kostnað fyrirtækja og sviða innan borgarinnar var einnig lagt fram og var heildarkostnaðurinn um 100 milljónir. Þar sker Orkuveitan sig úr og ferðuðust starfsmenn hennar fyrir 50 milljónir króna. Umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar ferðaðist fyrir um 9,4 milljónir og skrifstofa þjónustu og reksturs fyrir 5,7 milljónir króna.

Hér má sjá sundurliðaðan kostnað á hvern fulltrúa, starfsmann og fyrirtæki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×