Jól

Borgin breytist í jólaþorp

Elín Albertsdóttir skrifar
Áshildur Bragadóttir, forstöðumaður Höfuðborgarstofu, ásamt samstarfsmönnum sem komið hafa að undirbúningi jólanna í borginni.
Áshildur Bragadóttir, forstöðumaður Höfuðborgarstofu, ásamt samstarfsmönnum sem komið hafa að undirbúningi jólanna í borginni.
Á fyrsta degi aðventu á sunnudag breytist höfuðborgin í eitt stórt jólaþorp en þá verður kveikt á jólatrénu á Austurvelli. Starfsmenn Höfuðborgarstofu hafa lagt allt kapp á að útbúa skemmtilega jóladagskrá fyrir alla fjölskylduna og vonast til að sem flestir kíki í miðborgina á aðventunni. Sönghópar, jólavættir og jólasveinar munu setja svip sinn á borgina.

Það er alltaf stór stund þegar kveikt er á jólatrénu á Austurvelli en það verður kl. 16 á sunnudag. Jólasveinar hafa venjulega ráfað til byggða þennan dag til að gleðja börnin þótt þeir eigi ekki að sjást fyrr en þrettán dögum fyrir jól. Að sögn Áshildar Bragadóttur, forstöðumanns Höfuðborgarstofu, hefst formleg jóladagskrá Reykjavíkurborgar þennan dag en alla laugardaga til jóla verður mikið um að vera í miðborginni. Kórar og ævintýrapersónur verða á kreiki með óvænta jólaviðburði og jólavættir koma sér fyrir á húsveggjum. Það er ratleikur sem allir geta tekið þátt í og er hægt að nálgast hann í Ráðhúsinu, Hafnarhúsinu og á Kjarvalsstöðum.

Skemmtilegar jólavættir verða á vegi vegfarenda sem kíkja í miðborgina fyrir jólin.
„Reykjavík hefur tvisvar verið tilnefnd sem jólaborg af fréttastöðinni CNN og ein af fimm jólaborgum í heiminum. Við tökum það hlutverk mjög alvarlega og höfum verið að byggja upp skemmtilegan jólabrag. Má þar nefna skautasvellið á Ingólfstorgi sem er í samstarfi við Nova og verður nú í annað sinn. Skautasvellið setur mjög sterkan svip á mannlífið og jólastemningu í miðborginni og verður opið alla daga frá kl. 12-22. Jólaþorp rís í kringum svellið og þar verður hægt að kaupa sér mat og drykk. Jólaskreytingar og jólatónlist sjá svo um að skapa rétta jólandann. Allir verslunar- og veitingahúsaeigendur taka þátt í að búa til þennan jólablæ. Við hófumst handa við að skreyta borgina í byrjun nóvem­ber og því verður lokið fyrir næsta sunnudag,“ segir Áshildur.

Hún segir að sérstaklega verði vandað til dagskrárinnar á Þorláksmessu. „Þá verðum við með litla sönghópa hér og þar um bæinn og verður sungið frá kl. 16 til 22.­ Grýla og Leppalúði, jólasveinar og alls kyns fígúrur munu setja svip á götur borgarinnar. Ég á von á mikilli jólastemningu,“ segir Áshildur. „Sjálf fór ég í bæinn allar helgar fyrir jólin í fyrra og hef sjaldan upplifað jafn mikið mannlíf. Ég er viss um að það gæti orðið enn meira þetta árið. Fólk er farið að átta sig á því að iðandi mannlífið í miðborginni er sambærilegt við það sem gerist í stórborgum. Íslendingar eiga þátt í því en ekki síður ferðamennirnir sem setja sterkan svip á mannlífið. Við sem búum hér ættum að gera meira af því að vera ferðamenn í eigin borg og upplifa staði eins og Hallgrímskirkjuturn, Perluna, Hörpu og fleiri staði.“

Þess má geta að 35 jólatónleikar verða í Hörpu. Þá verður jólaskógur í Ráðhúsinu eins og í fyrra og vegleg dagskrá í Árbæjarsafni á sunnudögum í desember. 

Skautasvellið verður á sínum stað á Ingólfstorgi.
Hrekkjóttir jólasveinar gægjast á glugga og kíkja í potta. Börn og fullorðnir dansa í kringum jólatréð og syngja vinsæl jólalög. Einnig breytist Laugardalurinn í jóladal í desember og hægt að heimsækja dýrin í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, sjálfur jólakötturinn hefur svo komið sér vel fyrir í Húsdýragarðinum þar sem hann býr yfir jólin,“ segir Áshildur og bætir við að matarvagnar verði víða og hægt að kaupa ristaðar möndlur á Laugaveginum. „Þetta verður skemmtileg aðventa í miðborginni.“






×