Innlent

Borgar 784 krónur fyrir vinnuna sína

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Friðrik Indriðason
Friðrik Indriðason Fréttablaðið/ernir
Reykvíkingurinn Friðrik Indriðason er með minni ráðstöfunartekjur á hverjum mánuði fyrir hálft starf hjá Íslandspósti auk skertra atvinnuleysisbóta en þegar hann var á fullum atvinnuleysisbótum.

Friðrik fékk sinn fyrsta fulla mánuð greiddan í gær en hann hóf störf hjá póstinum í apríl síðastliðnum. Fyrir hafði hann verið á atvinnuleysisskrá síðan í nóvember 2013.

Friðrik var með 160.294 krónur í ráðstöfunartekjur á fullum bótum en eftir að hann fékk sér starf sem bílstjóri hjá póstinum vegna þreytu á atvinnuleysinu hafa þær minnkað í 159.510 krónur. Þannig er Friðrik í raun að borga 784 krónur fyrir að vinna hjá póstinum í stað þess að vera á fullum atvinnuleysisbótum.

Friðrik verður af 784 krónum á mánuði eftir að hann réð sig í hálft starf við póstburð. Fréttablaðið/ernir
„Maður myndi halda að maður myndi auka ráðstöfunartekjur við það að fá sér hálft starf,“ bætir Friðrik við og segir Vinnumálastofnun hvetja atvinnulausa til að útvega sér aukavinnu. Sjálfur vill Friðrik vara aðra við því þar sem ráðstöfunartekjur hans hafa minnkað við það.

„Við það að fá mér hálft starf lækka ráðstöfunartekjurnar því Vinnumálastofnun segist ekki geta reiknað dæmið mitt, sem er ekki mjög flókið, það er að segja frítekjumark atvinnulausra, 59 þúsund krónur,“ segir Friðrik sem er langt frá því að vera sáttur.

Bótaþegar eiga rétt á að vinna sér inn um 59 þúsund krónur áður en bætur eru skertar. Friðrik segir hins vegar að Vinnumálastofnun hafi ekki reiknað það með og að það sé hvergi að sjá á launaseðli hans.

„Hvernig stendur á því að þau geti ekki reiknað út frítekjumarkið? Það er þúsund króna spurningin,“ segir Friðrik.

Unnur Sverrisdóttir, sviðsstjóri Vinnumálastofnunar, segir málið ekki tengjast frítekjumarkinu.

„Við fórum að skoða þetta og þetta á sér allt eðlilegar skýringar. Það er ekkert misjafnt hérna á ferðinni,“ segir Unnur sem gat þó ekki útskýrt málið fyrir blaðamanni því upplýsingarnar væru persónulegar.

Friðrik gefur lítið fyrir svör Vinnumálastofnunar og segist vera búinn að fá upp í kok af stofnuninni. Hann reynir nú að fjarlægja sig frá stofnuninni og hefur ekki áhuga á frekari samskiptum við Vinnumálastofnun, sem Friðrik kallar helsjúka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×