Lífið

Bóndinn á Unaósi hefur engan tíma til að fagna Útsvarssigri

Bjarki Ármannsson skrifar
Sigurlið Fljótsdalshéraðs. Frá vinstri: Björg Björnsdóttir, Þorsteinn Bergsson og Hrólfur Eyjólfsson.
Sigurlið Fljótsdalshéraðs. Frá vinstri: Björg Björnsdóttir, Þorsteinn Bergsson og Hrólfur Eyjólfsson. Mynd/RÚV
„Þetta var mjög sætt,“ segir Þorsteinn Bergsson, bóndi á Unaósi og nýkrýndur sigurvegari í spurningakeppninni Útsvari. Þorsteinn er landsmönnum kunnugur fyrir framgöngu sína í sjónvarpsþættinum með liði Fljótsdalshéraðs, sem bar í gær sigurorð af Reykvíkingum í úrslitaviðureigninni.

Sennilega hefur enginn keppt fleiri viðureignir í Útsvari en Þorsteinn, sem tekið hefur þátt í sjö skipti af þeim níu sem keppnin hefur verið haldin og fjórum sinnum ratað alla leið í úrslit. Þetta er þó í fyrsta sinn sem lið hans hreppti Ómarsbjölluna eftirsóttu.

„Þau voru nú eitthvað að spyrja mig í gær hvað ég hefði verið í mörgum leikjum,“ segir Þorsteinn. „Ég mundi það nú ekki en ég fór að hugsa eftir á að vinningshlutfallið hlýtur að vera nokkuð gott. Þó að úrslitaleikirnir hafi óþarflega oft tapast.“

Þorsteinn er glaður í bragði þegar blaðamaður nær af honum tali, enda fullt tilefni til. Sonur hans útskrifast í dag úr menntaskóla og verður veisla honum til heiðurs síðar í dag. Þá er sauðburður í fullum gangi á Unaósi og því nánast enginn tími til að fagna sigri í spurningakeppni.

„Maður vill nú ekki skyggja á strákinn, þetta er hans dagur,“ segir Þorsteinn kátur. „Svo fengum við nú bara íhlaupamann í dag til að sinna sauðburðinum, því það mátti enginn í fjölskyldunni vera að því.“

Ofan á allt annað þurfti Þorsteinn fyrr í dag að skreppa upp í Hallormsstaðaskóg til að sinna skyldum sínum sem formaður Briddssambands Austurlands. Þar þurfti nefnilega að setja stórt briddsmót.

„Þeir héldu reyndar að ég myndi ekki mæta, þannig að það var annar búinn að því,“ segir Þorsteinn og hlær. „En ég lét allavega sjá mig þar og briddsspilarar tóku vel á móti mér.“

Þó að lítill tími hafi gefist til að fagna sigrinum segir Þorsteinn að héraðsfólk sé mjög sátt með sigurinn og að allir sem hann hafi hitt í dag hafi klappað honum á bakið. Hann segist frekar hafa hugsað sér að hætta þátttökunni í Útsvar en ekki, nú þegar sigur hefur loks unnist. Hann útilokar þó ekkert.

„Maður veit svosem ekki hvort það verður eitthvað herjað á mig næsta haust,“ segir hann. „Það er eins og með forsetaframbjóðendurna, maður á kannski erfitt með að standast áskoranirnar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×