Lífið

Blása til allsherjar bjórveislu

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Kominn tími til - Stefán segir tímabært að bjórbók komi út á móðurmálinu.
Kominn tími til - Stefán segir tímabært að bjórbók komi út á móðurmálinu. fréttablaðið/vilhelm
Í kvöld munu Stefán Pálsson og Höskuldur Sæmundsson, kennarar í Bjórskólanum, slá til risavaxins bjórpartís á Kexi Hosteli til að slúðra um bókina Bjór – Umhverfis jörðina á 120 tegundum eftir þá kappana. „Við erum að leiða saman öll íslensku brugghúsin. Það gerist nú ekki á hverjum degi,“ segir Stefán en brugghúsin munu kynna afurðir sínar í veislunni.

Bókin er fyrsta frumsamda bjórbókin á íslensku. „Það hafa komið út tvær þýddar bjórbækur þannig að það er orðið tímabært að gefa loksins út eina bók á móðurmálinu. Það eru náttúrulega vel flestar íslensku tegundirnar dekkaðar innan um helstu og kunnuglegustu erlendu bjórana. Þannig að menn eru bara í góðum félagsskap.“ Crymogea gefur bókina út en Rán Flygenring sér um teikningar.

Aðspurður um uppáhaldsbjórinn segir Stefán að mismunandi bjórar séu það við mismunandi tilefni. „Núna er að styttast í jólin og þá fer maður í eitthvað karamellukenndara. Þá er tíminn fyrir Bock-bjórana svokölluðu,“ segir Stefán sem er líka mikill aðdáandi Chimay-bjórsins, sem bruggaður er af belgískum munkum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×