Innlent

Blandar sér ekki í formannskrísuna

Snærós Sindradóttir skrifar
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri
„Ég ætla ekkert að blanda mér í þetta. Ég deili áhyggjum af stöðunni og það þarf að finna leiðir til að breyta því,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri um krísuna sem komin er upp í Samfylkingunni. Í gærkvöldi ákvað stjórn Samfylkingarinnar að leggja það til við framkvæmdastjórn flokksins að landsfundi yrði flýtt. 

Samkvæmt frétt mbl.is gera lög flokksins ekki ráð fyrir að hægt sé að flýta landsfundi. 

Flokkurinn hefur aldrei mælst lægri en í skoðanakönnunum nú um stundir. Bæði Ungir jafnaðarmenn og Samfylkingin á Akureyri hafa ályktað að vegna dræms fylgis sé nauðsynlegt að boða til landsfundar fyrir vorið.

Á síðasta landsfundi flokksins, sem haldinn var í mars á síðasta ári, sigraði Árni Páll Árnason formaður Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur þingmanni með einu atkvæði.

Aðspurður þvertekur Dagur fyrir það að hann geti hugsað sér að verða formaður flokksins. „Nei. Við í meirihlutanum [í Reykjavík] erum stödd í miðju verkefni og það á hug minn allan. Ég svara þessu mjög skýrt við alla sem hafa ljáð máls á því.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×