Innlent

BL biður Memfismafíuna afsökunar

Jakob Bjarnar skrifar
Kiddi í Memfismafíunni leitar réttar sín vegna auglýsingar BL.
Kiddi í Memfismafíunni leitar réttar sín vegna auglýsingar BL.
Í Fréttablaðinu í dag birtist Land Rover-auglýsing frá BL, þar sem tvær línur úr laginu „Það geta ekki verið gordjöss“, sem Memfismafían og Páll Óskar fluttu í söngleiknum Diskóeyjan, er notuð sem uppistaða. Lagið náði miklum vinsældum fyrir fáeinum árum. Vefmiðillinn Nútíminn, greinir frá því að verulegrar óánægju gæti í herbúðum Memfismafíunnar, en ekki var haft fyrir því að fá leyfi fyrir notkun hendinganna, hvað þá meira. „„Ég reikna bara með því að BL sendi mér bíl — ég vil fá bíl í fyrramálið,“ hefur Nútíminn eftir Guðmundi Kristni Jónssyni, eða Kidda, einum meðlima Memfismafíunnar. Hann segir þá félaga þegar byrjaðir að leita réttar síns í málinu en þetta sé fráleitt í fyrsta skipti sem textabrot frá þeim séu notuð án leyfis í auglýsingum; mikið af „kósíkvöldum“ og „mamma þarf að djamma“.

Markaðsstjóri BL er Loftur Ágústsson, hann hefur yfirumsjá með auglýsingum fyrirtækisins og honum var brugðið þegar Vísir leitaði viðbragða, en það er auglýsingastofan ENNEMM sem hannar auglýsingar BL. „Okkar fyrstu viðbrögð voru að stoppa frekari birtingar á auglýsingunni og þar sem við höfum ekki fengið tækifæri til að biðja hlut að eigandi formlega velvirðingar á að hafa notað þessar hendingar í auglýsinguna langar okkur að gera það hér með. Okkur einfaldlega datt ekki í hug að við værum að gera eitthvað sem við mættum ekki því fór sem fór,“ segir Loftur. Hann segist auk þess bera fulla virðingu fyrir höfundarétti og áréttar að um klaufaleg mistök séu að ræða.

Málið er nú til athugunnar en höfundarréttarmál hafa hingað til verið að velkjast á gráu svæði, og óljóst hvar línur liggja. Þannig bendir Helgi Seljan sjónvarpsmaður, og ákafur aðdáandi Bubba Morthens, á það á sinni Facebooksíðu að fyrirsögn mbl.is, „Með skaddað stýri og laskaða vél“, sé beint upp úr textabók Bubba: „Menn vitna ekki nógu oft í Bubba í fyrirsögnum. Hér er það líka ídealt, þó tilvísun í textabrotið fjalli auðvitað um hræðilegan harmleik sem ólíkt þessum - sem betur fer - kostaði mörg mannslíf.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×