Íslenski boltinn

Bjarni: Lögðum upp með að sækja hratt

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Eyjamenn fara vel af stað undir stjórn Bjarna.
Eyjamenn fara vel af stað undir stjórn Bjarna. vísir/ernir
„Þetta er auðvitað bara frábært. Stemmingin í liðinu var til fyrirmyndar og hún skilaði sér inn á völlinn. Við klárum þennan leik af krafti,“ sagði Bjarni Jóhannsson, þjálfari ÍBV, sigurreifur að leikslokum eftir 4-0 sigur á ÍA í fyrstu umferð Pepsi-deildarinnar í dag.

„Við vorum voðalega mismunandi á undirbúningstímabilinu, við áttum slæma tíma en það hefur verið mikill uppgangur í spilamennsku liðsins undanfarnar vikur.“

Jafnræði var með liðunum á fyrstu mínútum leiksins en eftir fyrsta mark ÍBV tóku Eyjamenn öll völd á vellinum.

„Þetta var frábær kafli hjá okkur þar sem hlutirnir voru að ganga vel hjá okkur. Þeir voru full framarlega á vellinum og við náðum að nýta okkur það vel. Hlutirnir voru að detta algjörlega okkar megin þá og við náðum að fylgja því eftir með þremur mörkum.“

Derby Carrillo kom af krafti inn í mark Eyjamanna í dag en ÍBV fékk nokkrar skyndisóknir eftir útköstin hans. Þá var hann eins og hershöfðingi inn í eigin vítateig.

„Við lögðum upp með að sækja hratt, sama hvar það kæmi. Hann er flottur karakter og hefur því miður ekki verið mikið með okkur að undanförnu en hann og Charlie komu inn í þetta af krafti og byrja vel í ÍBV-treyjunni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×