Innlent

Bifröst í alþjóðlegu verkefni

Samúel Karl Ólason skrifar
Arnar Stefánsson, Hjörtur Ingi Hjartarson, Ásdís Hrönn Pedersen og Selma Smáradóttir.
Arnar Stefánsson, Hjörtur Ingi Hjartarson, Ásdís Hrönn Pedersen og Selma Smáradóttir.
Háskólinn á Bifröst tekur þátt í alþjóðlega samstarfsverkefninu LawWithoutWalls, annað árið í röð. Bifröst er þar í hópi 30 þekktra háskóla eins og Harvard, Stanford og University College London. Markmið verkefnisins er að auka nýbreytni í kennslu lögfræði og framkvæmd.

Laganemar frá Bifröst tóku þátt í setningarhátíð verkefnisins í janúar, sem fram fór í Dublin. Samkvæmt tilkynningu frá Bifröst markar hátíðin upphaf verkefnisins sem unnið verður að næstu þrjá mánuði. Þar voru einnig myndaði hópar sem samanstanda af allt að tíu nemendum og leiðbeinendum.

Leiðbeinendurnir eru fræðimenn eða koma úr atvinnulífinu en einnig eru starfandi lögfræðingar og lögmenn frá Eversheds og öðrum framsæknum fyrirtækjum nemendum til leiðsagnar.

„Markmið verkefnisins er að nemendur öðlist þekkingu og færni  í leiðtogahæfni, hópavinnu, hagnýtri tækniþekkingu  og skapandi og lausnamiðaðri hugsun. Hátt í 450 fræðimenn, áhættufjárfestar, frumkvöðlar, og lögfræðingar víðsvegar úr heiminum taka þátt í þessu einstaka verkefni.“

Fimm nemendur frá Bifröst taka þátt í verkefninu í ár. Það eru þau Arnar Stefánsson, Hjörtur Ingi Hjartarson, Ásdís Hrönn Pedersen og Selma Smáradóttir. Auk þeirra var Sigtryggur Arnþórsson einnig valinn til að taka þátt, vegna framúrskarandi árangurs í fyrra.

Þátttakendur eru laganemar sem valdir eru að loknu ströngu umsóknarferli og persónulegu viðtali við fulltrúa frá University of Miami.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×