Fótbolti

Bestu leikmenn heims verða af milljónum því félögin höfnuðu stjörnuleik

Tómas Þór Þóraðrson skrifar
Cristiano Ronaldo fær ekki milljón dali til viðbótar fyrir að taka þátt í stjörnuleiknum.
Cristiano Ronaldo fær ekki milljón dali til viðbótar fyrir að taka þátt í stjörnuleiknum. vísir/getty
Hugmyndin um að halda stjörnuleik í knattspyrnunni þar sem Evrópuúrvalið myndi mæta liði skipað leikmönnum frá hinum heimsálfunum hefur verið slegin út af borðinu.

Leikurinn hefði verið fínasta búbót fyrir annars moldríka fótboltamenn heimsins, en þeir voru taldir fá upp undir eina milljón dala eða 133 milljónir króna fyrir að taka þátt.

Leikurinn átti alltaf að fara fram eftir að tímabilinu lyki í Evrópudeildunum og vera spilaður á Amsterdam Arena, heimavelli Ajax. Fyrirmyndin var stjörnuleikurinn í NBA, samkvæmt frétt Daily Mail.

Búið var að ganga frá fjármálunum, en kínversk fyrirtæki voru tilbúin að styrkja leikinn verulega. Þá var búið að afgreiða sjónvarpsréttinn.

Ofurumboðsmaðurinn Jorge Mendes var sama og búinn að lofa að hans bestu menn; Cristiano Ronaldo, Diego Costa, Ángel di María, Sergio Agüero og James Rodríguez, voru tilbúnir að taka þátt í leiknum.

Stóra hindrunin var alltaf fótboltadagatalið sem er nokkuð þétt skipað. Þegar Evrópudeildirnar eru að klárast styttist í landsleiki og því voru félögin ekki tilbúin til að hleypa sínum mönnum í þetta.

Eftir nokkurra vikna umræðu hittust formenn sambands evrópskra félagsliða í janúar og höfnuðu hugmyndinni alfarið. Það var þó ekki bara gert til að vernda leikmennina, heldur vildu félögin stærri skerf af kökunni. Það var ekki í boði, samkvæmt frétt Daily Mail.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×