Lífið

Berjast fyrir bættri velferð og meðferð á húsdýrum

Árni Stefán Árnason, dýraréttarlögfræðingur og sendiherra Íslands á alþjóðlega degi dýranna, hvetur alla til að hugsa til dýranna á morgun.
Árni Stefán Árnason, dýraréttarlögfræðingur og sendiherra Íslands á alþjóðlega degi dýranna, hvetur alla til að hugsa til dýranna á morgun. Fréttablaðið/Stefán
„Þetta eru málefni sem allir eiga að láta sig varða,“ segir Árni Stefán Árnason, dýraréttarlögfræðingur og svokallaður sendiherra Íslands á alþjóðlega degi dýranna sem verður haldinn hátíðlegur á morgun.

Þetta er í fyrsta sinn sem alþjóðlega degi dýranna er fagnað hér á landi. 4. október er hátíðardagur verndardýrlings dýranna, heilags Frans frá Assisi, en dagurinn var í fyrsta sinn skilgreindur á ráðstefnu vistfræðinga í Flórens á Ítalíu árið 1931. 

Upphaflegt markmið dagsins var að vekja athygli á dýrategundum í útrýmingarhættu en Árni segir að í dag snúist dagurinn meira um að berjast fyrir bættri velferð og meðferð dýranna.  „Þetta er í fyrsta sinn sem þessi dagur er haldinn hátíðlegur hér á landi undir þessum formerkjum. Dagurinn á ekki síst að beina sjónum að því hvernig við förum með dýr í dag og hvernig við getum bætt búfjárhald,“ segir Árni og á þá við til dæmis í matvæla- og fataframleiðslu. 

Árni vill vekja athygli Alþingis á hvernig dýravelferð er háttað hér á landi en hann fullyrðir að mörgu sé ábótavant í þeim efnum. Hann gagnrýnir þá helst verksmiðjubúskapinn og tekur sem dæmi eggjaframleiðslu þar sem hænur eru lokaðar inni margar saman í litlum rýmum til að verpa. „Evrópusambandið hefur til dæmis nýlega bannað þessa meðferð á hænum í eggjaframleiðslu en hér á landi breytist þetta ekki. Nýlegar rannsóknir sýna að dýrin standa miklu nær okkur í erfðafræðilegum skilningi en talið hefur verið. Það þýðir að dýr eru fullfær um að upplifa vellíðan og þjáningu eins og við.“

Í tilefni af degi dýranna verður hátíðardagskrá í Fríkirkjunni í Hafnarfirði og hefst hún klukkan 20. Árni hvetur sem flesta til að mæta enda verður þetta létt og stutt kynning á alþjóðlega degi dýranna sem og tónlistaratriði og upplestur.

Árni segir morgundaginn setja nýjan tón fyrir dýravernd á Íslandi en nánari upplýsingar má finn á vefsíðunni Dagurdyranna.is eða á Worldanimalday.co.uk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×