Íslenski boltinn

Berglind Björg: "Langaði að rífa mig úr að ofan og hlaupa um“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Berglind í baráttunni gegn Val fyrir rúmri viku. Það var fyrsti leikur hennar fyrir Breiðablik síðan árið 2014.
Berglind í baráttunni gegn Val fyrir rúmri viku. Það var fyrsti leikur hennar fyrir Breiðablik síðan árið 2014. vísir/eyþór
„Guð minn góður, já. Það fóru þarna einhver þrjátíu kíló af mér og mig langaði að rífa mig úr að ofan og hlaupa um,“ sagði Berglind Björg Þorvaldsdóttir, framherji Breiðabliks, eftir 2-0 sigur Breiðabliks á KR í 10. umferð Pepsi-deildarinnar.

Berglind skoraði síðara mark Breiðabliks í leiknum en hún kom til liðsins fyrir skemmstu frá Fylki. Þetta var þriðji leikur Berglindar fyrir liðið og fyrsta markið þrátt fyrir nokkurn fjölda færa. „Ég ætla rétt að vona að markaskorunin sé bara rétt að byrja.“

Blikar fengu fjölda ágætra færa til að setja fleiri mörk í leiknum. „Það bara féll ekki með okkur í dag en tvö mörk reyndust nóg. Þetta var þriðji leikurinn okkar á einni viku og það sást alveg á okkur að við vorum þreyttar. Við héldum samt alltaf áfram og náðum að setja tvö mörk.“

KR-liðið hefur verið í basli í undanförnum leikjum en þetta var fjórða tap liðsins í röð. Berglind segir að það hafi aldrei verið vottur af vanmati hjá hennar liði. „KR-liðið er mjög gott og þá sérstaklega varnarlega. Þær eru með öflugar skyndisóknir og við þurftum alltaf að passa okkur.“

Að öðru leyti segist Berglind vera mjög ánægð að vera komin í grænu treyjuna á ný en hún lék með liðinu 2007-10 og 2013-14. „Ég kann mjög vel við mig hérna,“ segir hún að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×