Innlent

Beittu táragasi á mann sem gleypti fíkniefni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá handtökunni á Vestmannagötu um kvöldmatarleytið í gær.
Frá handtökunni á Vestmannagötu um kvöldmatarleytið í gær. Vísir/KTD
Á sjötta tug fíkniefnamála hafa komið upp á Heimaey í tengslum við Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina. Blaðamaður varð vitni að því þegar starfsmenn fíkniefnadeildar lögreglu beittu táragasi á mann við Vestmannabraut í gær.

Sex lögregluþjónar með þrjá leitarhunda sjá alfarið um fíkniefnaleit á Þjóðhátíð. Átta fíkniefnabrot komu upp á fimmtudagskvöld, 22 á föstudagskvöld og á þriðja tug bættust við í gærkvöldi. Mest er um hvít efni að ræða en annars virðist alla flóruna vera að finna.

Fjóra lögreglumenn þurfti til að yfirbuga mann á Vestmannabraut á áttunda tímanum í gærkvöldi sem var grunaður um að hafa gleypt efni í þann mund sem handtaka átti manninn. Lét maðurinn ófriðlega við handtökuna, var tekinn í jörðina og beittu lögreglumennirnir að endingu táragasi. Maðurinn óskaði eftir lögmanni sínum áður en hann var leiddur inn í stærri lögreglubíll sem mætti á vettvang.

Geta skaðað sjálfa sig

Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum, þekkti ekki til málsins þegar blaðamaður ræddi við hann síðdegis. Hann sagði þó það koma fyrir að menn reyndu að gleypa efni og þá væri reynt að grípa inn í sem allra fyrst. Ekki síst í þeim tilgangi að hjálpa viðkomandi enda geti verið skaðlegt að gleypa mikið magn efna. Enginn gisti þó fangageymslur í nótt vegna fíkniefnabrota.

Í flestum tilfellum þeirra 50-60 brota sem upp hafa komið um helgina er um neysluskammta að ræða en þó liggur í sumum tilfellum grunur um að efni hafi verið ætlað til sölu. Það hafi meðal annars verið tilfellið hjá einum sem var með tíu skammta af LSD á sér. Allajafna er málum sem þessum lokið á staðnum en menn fá svo sekt senda í pósti þar sem algeng upphæð er 50-60 þúsund krónur þótt það fari auðvitað eftir magni og tegund. Greiði menn ekki sektina geta málin svo farið fyrir dóm.

Stríður straumur fólks hefur verið til Eyja í dag og segist Jóhannes reikna með því að um 15 þúsund manns, að meðtöldum heimamönnum, verði í Herjólfsdal í kvöld þegar Brekkusöngurinn fer fram. Ingólfur Þórarinsson hefur leik klukkan 23 en bein útsending verður á Bylgjunni, Stöð 2 og Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×