Innlent

Beina ekki ferðamönnum í fjöruna á Stokksnesi

Brjánn Jónasson skrifar
Ratsjárstöð sem Landhelgisgæslan rekur er á Stokksnesi, og hefur stofnunin gert athugasemdir við gjaldtökuna.
Ratsjárstöð sem Landhelgisgæslan rekur er á Stokksnesi, og hefur stofnunin gert athugasemdir við gjaldtökuna. Mynd/Runólfur Hauksson
Starfsmenn á gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Höfn í Hornafirði munu hætta að beina fólki í fjöruna á Stokksnesi eftir að landeigandi ákvað að innheimta gjald af ferðamönnum sem vilja skoða fjöruna.

„Við höfum vísað ferðamönnum út á Stokksnes, þetta er mjög fallegur staður,“ segir Helga Árnadóttir, starfsmaður Vatnajökulsþjóðgarðs á Höfn. Landsvæðið er ekki hluti af þjóðgarðinum.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær ætlar landeigandinn í Stokksnesi að rukka ferðamenn sem fara um land hans um 600 krónur. Landeigandinn tilkynnti starfsfólki Vatnajökulsþjóðgarðs á Höfn um gjaldtökuna á laugardag.

Helga segist ekki ætla að beina ferðamönnum í fjöruna vegna þessarar gjaldtöku. „Ef fólk spyr okkur getum við ekki annað en upplýst fólk um hver staðan er í dag, en ég mun ekki benda fólki á að fara þangað af fyrra bragði,“ segir Helga.

„Mér finnst þetta ekki jákvætt,“ segir Helga. Hún segist reikna með að vinna í málinu með sveitarfélaginu, en nú þurfi að skoða betur hver sé lagalegur réttur landeigenda og réttur þeirra sem vilja fara um landið.

Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri Hornafjarðar, segir að þetta sé sérstakur gjörningur. Hann segist ekki hafa kynnt sér málið í þaula, en afstaða bæjarfélagsins verði væntanlega sú að reyna að koma í veg fyrir þessa gjaldtöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×