Fótbolti

Bayern náði ellefu siga forskoti með öruggum sigri

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Leikmenn Bayern fagna marki Kingsley Coman í dag.
Leikmenn Bayern fagna marki Kingsley Coman í dag. Vísir/Getty
Þýsku meistararnir í Bayern Munchen unnu enn einn leikinn í dag en liðið vann 2-0 sigur á Wolfsburg á útivelli og náði því ellefu stiga forskoti á Dortmund sem á þó leik til góða.

Þetta var þriðji sigurleikur Bayern í röð sem hefur nælt í 62 af 69 stigum sem í boði hafa verið í þýsku deildinni.

Leikmenn Wolfsburg vörðust vel framan af og fengu færi til þess að skora í fyrri hálfleik en staðan var markalaus í hálfleik.

Í seinni hálfleik jók Bayern Munchen pressuna og náðu leikmenn liðsins að skora fyrsta mark leiksins á 66. mínútu. Var þar að verki franski kantmaðurinn Kingsley Coman.

Robert Lewandowski bætti við öðru marki Bayern stuttu síðar og gerði út um leikinn en hann er nú kominn með tveggja marka forskot á Pierre Aubameyang í baráttunni um gullskóinn í Þýskalandi.

Aron Jóhannesson var ekki í leikmannahóp Werder Bremen sem krækti í stig á lokamínútum leiksins gegn Darmstadt í dag.

Aron hefur glímt við meiðsli undanfarna mánuði en er farinn að æfa á fullu og ætti því að geta tekið þátt í leikjum með liðinu innan skamms.

Úrslit dagsins:

Hamburger SV 1-1 Ingolstadt

VfB Stuttgart 1-2 Hannover

Werder Bremen 2-2 Darmstadt

Wolfsburg 0-2 Bayern Munchen




Fleiri fréttir

Sjá meira


×