Innlent

Bandaríkin vilja efla hvalaskoðun á Íslandi

Svavar Hávarðsson skrifar
Yfir 200.000 manns fóru í hvalaskoðun á Íslandi árið 2013.
Yfir 200.000 manns fóru í hvalaskoðun á Íslandi árið 2013. Vísir/GVA
Bandaríska sendiráðið á Íslandi hefur veitt Hvalaskoðunarsamtökum Íslands veglegan styrk til fræðslustarfs. Styrknum er ætlað að styðja við bakið á samtökunum til að auka fagmennsku og samstarf innan greinarinnar. Áherslan verður meðal annars lögð á markaðs- og kynningarmál, þjálfun leiðsögumanna og leiðbeinandi reglur um ábyrga hvalaskoðun.

Styrkurinn kemur í beinu framhaldi af fræðsluferð sem nokkrir félagsmenn samtakanna fóru í til Bandaríkjanna á vordögum og heldur því við áhrifaríku samstarfi við hvalaskoðunarfyrirtæki og sérfræðinga vestanhafs.

Í tilkynningu frá Hvalaskoðunarsamtökunum segir að aukið samstarf Bandaríkjastjórnar og hvalaskoðunarfyrirtækja á Íslandi megi rekja til minnisblaðs Baracks Obama Bandaríkjaforseta frá því í apríl. Þar hvatti hann íslensk stjórnvöld, bandaríska utanríkisráðuneytið og aðrar stofnanir til að styðja Íslendinga í þróun og útvíkkun aðgerða sem aukið gætu þau efnahagslegu tækifæri sem lifandi hvalir bjóða upp á. Hér á landi hefur hvalaskoðun einmitt verið í miklum vexti og er nú ein vinsælasta afþreyingin á meðal erlendra ferðamanna




Fleiri fréttir

Sjá meira


×