Fótbolti

Bale: Þægilegra að sitja heima og fylgjast með félagaskiptunum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gareth Bale vann Meistaradeildina með Real Madrid í vor.
Gareth Bale vann Meistaradeildina með Real Madrid í vor. vísir/getty
Gareth Bale segist í viðtali við enska blaðið Daily Mail ekki sjá neitt eftir því að yfirgefa Tottenham síðasta sumar og ganga í raðir Real Madrid.

Spænska stórliðið keypti hann fyrir 100 milljónir evra sem er hæsta verð sem borgað hefur verið fyrir leikmann. Hann vann tvo titla með Real á síðustu leiktíð og segir það sönnun þess að ákvörðunin hafi verið rétt.

„Ég tók rétta ákvörðun á síðasta ári. Titlarnir tveir sem við unnum á síðustu leiktíð og sigurinn í Stórbikarnum í Cardiff á dögunum sýna það,“ segir Bale.

Það var ekkert leyndarmál síðasta sumar að Real Madrid var á eftir Bale, en það tók langan tíma að ganga frá félagaskiptunum.

„Það er þægilegt að sitja heima og fylgjast með félagaskiptaglugganum. Þegar maður er búinn að koma sér fyrir einhverstaðar er hægt að njóta þess, en þannig var staðan ekki í fyrra. Þá var ég bara heima og beið eftir því að komast til Real,“ segir Bale.

„Það er ekki þægileg tilfinning þegar maður stendur á milli tveggja félaga, en ef maður vill færa sig um set þarf maður að ganga í gegnum þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×