Lífið

Baka pitsur fyrir útigangsmenn

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Þetta er annað árið í röð sem Hrefna útbýr sérstakar góðgerðarpitsur.
Þetta er annað árið í röð sem Hrefna útbýr sérstakar góðgerðarpitsur. MYND/Björn Árnason
„Við ákváðum að endurtaka leikinn, en í fyrra styrktum við Regnbogabörn. Í ár er málefnið mér sérstaklega hugleikið en öll upphæðin af sölu pitsunnar rennur óskert í minningarsjóð Lofts Gunnarssonar, sem ég þekkti persónulega,“ segir Hrefna Rósa Sætran sjónvarpskokkur sem verður í samstarfi við Domino's annað árið í röð um að gera sérstaka pitsu og rennur ágóðinn til góðgerðarmála.

Minningarsjóðurinn var stofnaður í minningu Lofts, en tilgangur hans er að bæta hag útigangsmanna í Reykjavík ásamt því að berjast fyrir að lögbundin mannréttindi þeirra séu virt.

„Loftur var úr Garðabænum eins og maðurinn minn og margir vinir. Svo átti hann sama afmælisdag og Bertram Skuggi, sonur minn. Síðustu ár þá hitti ég hann mest niðri í bæ þar sem við spjölluðum oft og hann var alltaf jafn yndislegur. Mér er minnisstætt að hann sagðist ætla að gefa Bertram Skugga hermannajakka, eins og hann gekk alltaf í og varð eins konar einkenni Lofts, í tveggja ára afmælisgjöf, en Loftur lést fyrir þann tíma,“ rifjar Hrefna upp. Hún segir að ekki sé nægilega vel hugað að útigangsmönnum á Íslandi.

„Það fer ekki nægur peningur í að gera líf þessa fólks bærilegra. Minningarsjóðurinn er að gera frábæra hluti sem væru aldrei gerðir nema fyrir þeirra starf,“ segir Hrefna og bætir við að enn séu útigangsmenn sem þurfi að vera á götunni á næturnar í Reykjavík vegna plássleysis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×