Innlent

Aukin hætta á gróðureldum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Hætta á gróðureldum hefur aukist hér á landi á undanförnum árum samfara aukinni skógrækt og minnkandi sauðfjárbeit. Sumarhúsabyggðir eru sérstaklega viðkvæmar að mati sérfræðings en þar liggur trjágróður oft þétt upp við hús.

Sérstakur starfshópur um brunavarnir í gróðri kynnti í dag nýjan bækling og nýja vefsíðu þar sem lögð er áhersla á forvarnir og fyrstu viðbrögð við gróðureldum.

Pétur Pétursson formaður Félags slökkviliðsstjóra segir að hættan á slíkum eldum hafi aðeins aukist á undanförnum árum samfara aukinni trjárækt og minnkandi sauðfjárbeit.

Dóra Hjálmarsdóttir sérfræðingur í öryggismálum hjá Verkís  segir að sumarhúsasvæði séu sérstaklega viðkvæm fyrir þessari þróun en þar liggur trjágróður oft þétt upp við hús. 

„Þéttleiki gróðurs á sumarhúsavæðum hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum og það er kominn tími til þess að við hugum að þessum málum. Í upphafi voru sumarhúsasvæðin á bersvæði en fólk hefur  verið gríðarlega duglegt við að planta en síður að grisja,“ segir Dóra.

Þá getur einnig skapast hætta ef upp kemur eldur á stórum skógræktarsvæðum á borð við Heiðmörk.

„Í réttu árferði, sem sagt mikill þurrkur og mikill vindur, væri þetta eldur sem væri mjög erfitt að eiga við. Við eigum ekki flugvélar sem flytja vatn en landhelgisgæslan er með þyrlu og poka til að flytja vatn sem kannski má sín lítils í svona stórum eldi. Það yrði virkilega stórt verkefni ef til þess kæmi,“ segir Pétur Pétursson formaður Félags slökkviliðsstjóra.

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á vefsíðunni grodureldar.is 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×