Innlent

Auka þrír milljarðar í arð frá Landsbankanum

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Bankinn gefur ágætlega af sér í ríkissjóð.
Bankinn gefur ágætlega af sér í ríkissjóð. Vísir/Vilhelm
Landsbankinn ætlar að greiða ríkinu þremur milljörðum meira í arð en gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum og fjáraukalögum fyrir síðasta ár. Gert hafði verið ráð fyrir 21 milljarði króna í arðgreiðslur frá bankanum en samkvæmt tilkynningu í gær verður lagt til á hluthafafundi bankans að greiða alls 24 milljarða í arð.



Í upphafi árs var gert ráð fyrir sex milljarða arði frá bankanum, sem er 97,9 prósent í eigu íslenska ríkisins, en í fjáraukalögum, sem samþykkt voru í desember síðastliðnum, var gert ráð fyrir að bankinn myndi greiða aukalega fimmtán milljarða, eða samtals 21 milljarð króna, samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu.



Landsbankinn á sjálfur hlut í sér en fær ekki greiddan arð. Skiptist því arðgreiðslan í hlutfalli á milli annara eigenda. og 1.400 núverandi og fyrrverandi starfsmenn bankans fá 192 milljónir í sinn hlut. Ríkið fær því 23,8 milljarða í arð en starfsmenn bankans um 200 milljónir.

Samanlagðar arðgreiðslur vegna síðustu þriggja rekstrarára munu því nema um 53,5 milljörðum króna, verði arðgreiðslan vegna síðasta árs samþykkt, samkvæmt tilkynningu bankans.

Uppfært klukkan 15.29. Ekki var rétt sem stóð upphaflega í fréttinni að gamli Landsbankinn ætti hlut í bankanum heldur á bankinn hlut í sjálfum sér. Bankinn greiðir sjálfum sér ekki arð og hækkar því hlutfall hinna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×