Innlent

Auka sýnilegt eftirlit lögreglu

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Ofbeldisbrotum í miðborginni fækkaði úr 534 í 342 á ári milli áranna 2007 og 2015.
Ofbeldisbrotum í miðborginni fækkaði úr 534 í 342 á ári milli áranna 2007 og 2015. vísir/kolbeinn tumi
„Þetta verkefni er bæði þjónustutengt gagnvart þeim sem eru í miðborginni á virkum dögum og síðan snýr það einnig að ofbeldisbrotum í miðbænum um helgar,“ segir Kristján Ólafur Guðnason aðstoðaryfirlögregluþjónn um tilraunaverkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóra í sumar.

Verkefnið miðar að því að auka sýnilegt eftirlit. Auk þess er stefnt að fjölgun eftirlitsferða á merktum lögreglubifreiðum embættanna.

Þá verði aukinn þungi settur í eftirlit lögreglu í miðborginni aðfaranótt laugardags og sunnudags milli klukkan tvö og fimm, en reynslan hefur sýnt að flest ofbeldisbrot eiga sér stað á þeim tíma.

„Markmiðið er að fækka brotum og minnka viðbragðstímann,“ segir Kristján.

Verkefni lögreglu lýkur formlega 15. september og verður þá tekin ákvörðun um framhaldið.

„Við hvetjum einnig fólk til árvekni í þessu sambandi, að taka afstöðu gegn ofbeldi í hvaða mynd sem er og gera þannig sitt til að fækka brotum.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×