Lífið

Auglýst eftir aukaleikurum í Fanga

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Nína Dögg og Unnur Ösp fara með stór hlutverk í sjónvarpsþáttunum Fangar.
Nína Dögg og Unnur Ösp fara með stór hlutverk í sjónvarpsþáttunum Fangar. Vísir/Lilja Jónsdóttir
Framleiðendur sjónvarpsþáttanna Fangar sem nú eru í tökum leita nú að aukaleikurum í ýmiss konar smáhlutverk í þáttunum. Tökur á Föngum eru hálfnaðar en leikstjóri þeirra er Ragnar Bragason sem skrifar einnig handritið ásamt Margréti Örnólfsdóttur.

Það vantar aukaleikara á öllum aldri og af báðum kynjum og eru áhugasamir hvattir til þess að senda tölvupóst á aukaleikarar@mystery.is. Beðið er um að senda póst með nafni, símanúmeri og mynd. Haft verður samband til baka til allra þeirra sem senda tölvupóst.

Ragnar, Nína og Kristbjörg fara yfir málin við tökur á Föngum sem eru nú hálfnaðar.Vísir/Lilja Jónsdóttir
Samfélagsdrama með áherslu á konur

Með helstu hlutverk í Föngum fara Nína Dögg Filippusdóttir, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Þorbjörg Helga Dýrfjörð og Halldóra Geirharðsdóttir.

Aðrir leikarar í þáttunum verða Steinunn Ólína og Kristbjörg Kjeld svo einhverjir séu nefndir.

Sagan segir frá Lindu en hún endar í kvennafangelsinu í Kópavogi eftir að hafa verið dæmd fyrir líkamsárás á föður sinn sem er þekktur maður í viðskiptalífinu. Aðeins hluti sögunnar gerist í fangelsinu en um er að ræða fjölskyldudrama með fókus á konur sem teigir anga sína víða um íslenskt samfélag. Allt ofan úr Alþingi og niður í áðurnefnt kvennafangelsi.

Það er framleiðslufyrirtækið Mystery Production í samvinnu við Vesturport og Rúv sem gerir þættina en þegar er búið að selja sýningarréttinn á þeim til DR í Danmörku, NRK í Noregi, SVT í Svíþjóð, YLE í Finnlandi og til Canal+ í Póllandi. RÚV sýnir þættina hér á landi eftir áramót.


Tengdar fréttir

Samstarf fjölskyldunnar gengur vel

Tökur standa nú yfir á þáttarröðinni Fangar í leikstjórn Ragnars Bragasonar. Leikhópurinn spannar hátt í hundrað manns þar sem uppistaðan eru konur á öllum aldri. Með hlutverk í þáttunum fara meðal annars þær, Þorbjörgu Dýrfjörð og Kristbjörgu Kjeld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×