Innlent

Auglýsa Grímsstaði á Evrópska efnahagssvæðinu

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Grímsstaðir á Fjöllum verða auglýstir til sölu á Evrópska efnahagsvæðinu á næstu dögum að sögn eigenda meirihluta jarðarinnar.
Grímsstaðir á Fjöllum verða auglýstir til sölu á Evrópska efnahagsvæðinu á næstu dögum að sögn eigenda meirihluta jarðarinnar. Fréttablaðið/Pjetur
„Okkur finnst vera komið nóg. Það er búið að draga okkur á asnaeyrunum í á þriðja ár,“ segir Jóhannes Haukur Hauksson, einn fjögurra eigenda sem hyggjast á næstu dögum auglýsa 72 prósenta hlut í Grímsstöðum á Fjöllum til sölu á Evrópska efnahagssvæðinu.

Eins og kunnugt er höfnuðu stjórnvöld því að heimila Kínverjanum Huang Nubo að kaupa hlut fjórmenninganna í Grímsstöðum. Þá stóð til að jörðin yrði seld eignarhaldsfélagi sveitarfélaga á svæðinu sem síðan myndi gera samning við Nubo um leigu á Grímsstöðum til langs tíma. Ríkið á um 23 prósent í jörðinni á móti fjórmenningunum og nokkrir einkaaðilar afganginn.

Jóhannnes Haukur Hauksson Einn eigenda Grímsstaða. Fréttablaðið/E. Ól
Segjast ekkert fá að vita

Jóhannes bendir á að fyrir langtímaleigunni til Nubos þurfi undanþágu frá lögum sem ekki hafi fengist. „Því var raunverulega ekki neitað en ríkisstjórnin sagðist þurfa að endurskoða lögin. Sú nefnd er búin að skila af sér til innanríkisráðherra og ráðherra er búinn að vera með niðurstöðuna í þrjár vikur en við fáum ekkert að vita og það veit enginn hvernig það fer,“ segir Jóhannes.

Hver sem er á Evrópska efnahagssvæðinu hefur rétt til að kaupa fasteign hér og Jóhannes segir að hugsanlegir kaupendur hafi þegar sett sig í samband. „Það hafa aðilar sýnt þessu mikinn áhuga en við vitum náttúrlega ekki hvað er á bak við það,“ segir Jóhannes sem kveðst ekki vita nákvæmlega um fyrirætlanir þessara aðila á Grímsstöðum.

„Við ætlum ekki að loka neinum möguleikum. Við ætlum bara að kanna hvað annað er í boði á Evrópska efnahagsvæðinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×