Innlent

Atvinnuleysið verður meira en fyrir hrun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Á meðal fundargesta var Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.
Á meðal fundargesta var Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans. Fréttablaðið/GVA
Atvinnuleysi á Íslandi verður tæplega aftur jafn lítið og það var fyrir hrun og ætla má að jafnvægisatvinnuleysi verði í framtíðinni meira en áður hefur þekkst á íslenskum vinnumarkaði. Þetta segir í nýrri hagspá Hagfræðideildar Landsbanka Íslands.

Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar, segir að fyrir hrun hafi ekki verið óalgengt, þegar þenslan var sem mest, að atvinnuleysið færi undir eitt prósent.

„Það er miklu lægra en sem nemur stöðugu verðlagi. Í Svíþjóð er jafnvægisatvinnuleysið metið á yfir sex prósent. Það er þá það atvinnuleysisstig sem menn telja að samræmist verðstöðugleika,“ segir Daníel. Þetta séu þau mörk sem þurfi til að halda verðstöðugleika.

Í hagspánni segir að staða á vinnumarkaði hafi batnað nær stöðugt undanfarið. Atvinnuleysi var mest í byrjun árs 2010 en hefur minnkað mikið. Starfandi fólki fór þó ekki að fjölga í umtalsverðum mæli fyrr en í fyrra þegar tæplega 6.000 manns bættust í hópinn. Í ár hefur staðan batnað enn frekar, atvinnuleysi minnkar reyndar hægar en áður, en batinn kemur fram í aukinni atvinnuþátttöku.

Þá segir að langtímaatvinnuleysi hafi farið minnkandi. Á þriðja ársfjórðungi 2014 höfðu 0,5 prósent vinnuaflsins verið atvinnulaus í tólf mánuði eða lengur samanborið við 1% vinnuaflsins á þriðja fjórðungi 2013.

Langtímaatvinnuleysi hefur ekki mælst jafn lágt síðan á þriðja ársfjórðungi 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×