Innlent

Ástandið á leigumarkaði í Reykjavík grafalvarlegt

Ástandið á leigumarkaði í höfuðborginni er orðið svo slæmt að tugir manna berjast um hverja íbúð sem losnar. Þess eru dæmi að fólk leigi íbúðir án þess að sjá þær. Formaður félags leigumiðlara segir ástandið grafalvarlegt og bregðast þurfi við sem fyrst.

Hátt í átta hundruð háskólastúdentar bíða nú eftir leiguhúsnæði hjá félagsstofnun stúdenta. Framkvæmdastjóri stofnunarinnar segir almennan leigumarkað of dýran og framboð af íbúðum fyrir ungt fólk lítið sem ekkert. Svanur Guðmundsson formaður félags leigumiðlara og eigandi leigumiðlunarinnar húsaleiga.is segir ástandið ekki gott.

„Vægast sagt fyrir stúdenta sem eru að koma núna í skóla myndi ég segja að mjög erfitt væri að finna húsnæði til leigu hér nálægt háskólanum og það er geysileg eftirspurn eftir húsnæði."

Ef litið er á fjölda þinglýstra leigusamninga á öllu landinu síðustu fimm var rúmlega fimm þúsund leigusamningum þinglýst árin 2006 og 2007. Það jókst svo töluvert hrunárið 2008 en þá var rúmlega sjö þúsund og þrjú hundruð samningum þinglýst. Árin 2009 og 2010 hefur fjöldi þinglýstra leigusamninga tvöfaldast frá 2006. Rúmlega tíu þúsund og fimm hundruð samningum var þinglýst 2009 og um tíu þúsund og fjögur hundruð í fyrra.

„Eftir að íbúð hefur verið til leigu í fimm klukkutíma á vefnum þá eru fjörutíu til sextíu manns að sækja um hana. Sumir vilja taka þær án þess að vera búnir að sjá þær." segir Svanur. Þessum málum hafi ekkert verið sinnt eftir hrun og hann telur brýnt að brugðist sé við því áður en ástandið versnar enn frekar.

„Það þarf að byggja húsnæði í þéttbýlinu nálægt háskólaumhverfinu. Þar hefur ekkert verið byggt undanfarin ár. Uppbygging hefur aðallega verið í úthverfunum og öðrum bæjarfélögum. Það kostar mjög mikið að búa þar vegna fjarlægðarinnar auk þess sem bensínkostnaður er mikill."







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×