Fótbolti

Sadio Mané með stoðsendingu þegar Senegal varð 24. þjóðin til að tryggja sig inn á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mané í leik með Liverpool.
Sadio Mané í leik með Liverpool. Vísir/Getty
Senegalar verða með Íslendingum á heimsmeistaramótinu í Rússlandi næsta sumar en þetta varð ljóst eftir sigur landsliðs Senegal í Suður-Afríku í kvöld.

Senegal vann 2-0 útisigur á Suður-Afríku og tryggði sér þar með sigur í riðlinum þótt að liðið eigi enn eftir að spila við Suður-Afríku á heimavelli.

Liverpool-maðurinn Sadio Mané lagði upp fyrra mark liðsins sem Diafra Sakho skoraði strax á tólftu mínútu. Diafra Sakho spilar með West Ham og mætti Mané í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

Seinna mark Senegal var sjálfsmark leikmanns Suður-Afríku á 38. mínútu.

Senegal er með fimm stigum meira en Búrkína Fasó þegar aðeins ein umferð er eftir.

Senegal er þriðja Afríkuþjóðin sem nær að tryggja sig inn á HM á eftir Egyptalandi og Nígeríu. Tvö sæti eru enn laus en Afríka mun eiga fimm lið á heimsmeistaramótinu í Rússlandi.

Landslið Senegal hefur aðeins einu sinn áður komist á HM en það var á HM í Suður-Kóreu og Japan þegar Senegal vann meðal annars ríkjandi heimsmeistara Frakka í fyrsta leik og komst alla leið í átta liða úrslit.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×