Fótbolti

Þjálfari Emils rekinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Emil í leik með Udinese.
Emil í leik með Udinese. vísir/getty
Stefano Colantuono, þjálfari ítalska A-deildarliðsins Udinese sem Emil Hallfreðsson leikur með, var í dag rekinn frá störfum vegna slæms gengis liðsins.

Udinese er aðeins búið að vinna einn af síðustu ellefu leikjum sínum í deildinni og er sem stendur í 16. sæti, aðeins fjórum stigum frá fallsvæðinu.

Emil spilaði sinn fjórða leik fyrir Udinese um helgina eftir að vera keyptur frá Verona, en Udinese tapaði fyrir Roma, 2-1, á heimavelli.

Emil hefur ekki verið í sigurliði í deildarleik síðan í maí í fyrra, en hann var ekki með Udinese í síðasta sigurleik þess gegn hans gamla félagi Verona í lok febrúar.

Luigi De Canio, sem þjálfaði síðast Catania, er sagður taka við Udinese. Hann hefur áður þjálfað Genoa í tvígang, QPR á Englandi, Reggina, Napoli og Udinese frá 1999-2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×