Innlent

Björgunarsveit vill þefhesta

Björgunarsveitarmenn á hestum geta komist greiðlega yfir torfært landslag án þess að skemma viðkvæman gróður. Þar sem hestarnir gæta sjálfir að því hvar þeir stíga niður getur knapinn einbeitt sér að því að leita.
Mynd/María Theodórsdóttir
Björgunarsveitarmenn á hestum geta komist greiðlega yfir torfært landslag án þess að skemma viðkvæman gróður. Þar sem hestarnir gæta sjálfir að því hvar þeir stíga niður getur knapinn einbeitt sér að því að leita. Mynd/María Theodórsdóttir

Þótt hestar hafi verið notaðir öldum saman hér á landi við leit og smölun á sauðfé hefur minna farið fyrir því undanfarin ár að þarfasti þjónninn sé notaður við leit og björgun á fólki.

Hópur björgunarsveitarfólks í Borgarnesi hefur starfrækt Leitarhesta í Borgarfirði í á annað ár. Halla Kjartansdóttir, forsvarsmaður hópsins, segir hópinn tilbúinn, nú sé beðið eftir útkalli þar sem hestarnir þyki henta.

Unnið er að því að koma slíkum hópum á legg á öðrum svæðum, til dæmis á Suðurlandi og í Skagafirði, enda góð leið til að sameina áhuga á hestamennsku, björgunarstörfum og útivist.

„Hestar komast ótrúlega vel og hratt yfir torsótt land. Knapinn sér betur yfir en fótgangandi björgunarsveitarmaður og hefur meira ráðrúm til að líta í kringum sig,“ segir Halla. Reiðmaðurinn hafi að auki annað sett af skynfærum sem næmur knapi geti nýtt sér.

„Við teljum leitarhesta góða viðbót við aðra leitarmöguleika sem nú eru í boði,“ segir Halla. „Þetta er hrein viðbót við það sem nú er í gangi. Fólk leitar á alls konar farartækjum, og sum þeirra henta ekki við allar aðstæður.“

Halla segir að framtíðarmarkmiðið sé ekki bara að nota hesta við leit og björgun, heldur að þjálfa þefhesta. Þeir geti gegnt svipuðu hlutverki og leitarhundar, með því að finna lykt af fólki sem verið er að leita að. Hestar hafa mjög gott þefskyn, og innan leitarhópa í Bandaríkjunum er stundum hluti af hestum hópsins þjálfaður sem þefhestar, segir Halla.

Ekki gengur að senda hvaða hest sem er til leitar, enda verða hestarnir að vera vel tamdir og traustir, fótvissir, sterkir og sjálfstæðir í hugsun. Halla segir þetta til að mynda eiga við marga af þeim hestum sem notaðir séu við smölun. Þá þarf knapinn að hafa þjálfun í björgunarstörfum til að nýtast sem best, þótt einstöku sinnum hafi verið leitað til óþjálfaðra heimamanna sem þekkja leitarsvæðið vel.

Gallinn við að nota hesta frekar en vélknúin farartæki er að útkallstíminn getur verið lengri. Halla segir mögulegt að leitarhópar á hestum verði frekar notaðir við leit eftir að fyrstu viðbrögð hafi verið sett í gang, til dæmis á öðrum degi leitar eða þegar leit sé efld.

Notkun hesta til leitar og björgunar er þekkt víða um heim. Halla er í forsvari fyrir undirbúningshópi sem vinnur að stofnun fleiri leitarhópa hér á landi. Hún segir mikilvægt að nýta sér reynslu annarra í þessum efnum. - bj



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×