Innlent

Segir Reykjavíkurborg aðeins vera að tefja lóðaskil

Egill Jóhannsson Forstjóri Brimborgar á lóðinni í Lækjamel 1 sem fyrirtækið vildi skila borginni eftir hrunið og fá hana endurgreidda en fær ekki.Fréttablaðið/Anton
Egill Jóhannsson Forstjóri Brimborgar á lóðinni í Lækjamel 1 sem fyrirtækið vildi skila borginni eftir hrunið og fá hana endurgreidda en fær ekki.Fréttablaðið/Anton

„Þótt maður vonaði að borgin myndi ekki halda áfram að níðast á fyrirtækjum og einstaklingum sýnist mér að það sé enn stefnan,“ segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar.

Egill vísar hér til orða Kristbjargar Stephensen borgarlögmanns í Fréttablaðinu í gær um að borgin þyrfti ekki og myndi ekki fara eftir úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og taka aftur við og endurgreiða lóð sem Brimborg fékk á Esjumelum fyrir hrun fjármálakerfisins.

„Ummæli borgarlögmanns staðfesta að borgin sé að nýta öll göt í kerfinu til að tefja málið jafnvel þótt hún telji sig á endanum þurfa að borga. Það er náttúrlega óþolandi stjórnsýsla. Sérstaklega er áhugavert að það heyrist ekki múkk í kjörnum fulltrúum sem þurfa væntanlega að staðfesta þessar hugmyndir borgarlögmannsins,“ segir Egill og bendir á að upphaflega hafi það verið Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri sem hafi ákveðið að breyta út af áratuga hefð hjá borginni og hætta að taka við óbyggðum lóðum og endurgreiða þær lóðarréttarhöfum sem þess óskuðu.

„Í samtalinu við Fréttablaðið minnist borgarlögmaður aldrei á þá niðurstöðu ráðuneytisins að þarna var í gangi léleg stjórnsýsla með því að jafnræðisregla var brotin,“ segir Egill. „Í svari borgarinnar til ráðuneytisins segir að borgarstjóri hafi ákveðið um mánaðamótin september og október 2008 „að hætta að taka við lóðum og endurgreiða lóðir vegna atvinnuhúsalóða“ sem staðfestir að um var að ræða viðtekna venju.“ Borgarráð staðfesti ákvörðun borgarstjóra 20. nóvember 2008.

Þá bendir Egill á að í úrskurði sínum vitni ráðuneytið til álits umboðsmanns Alþingis í öðru máli um að stjórnvöld eigi að tilkynna fyrirfram um breytta stjórnsýsluframkvæmd til að þeir sem málið snerti geti gætt hagsmuna sinna. „Stjórnsýslan getur ekki bara hagað sér eins og henni sýnist,“ segir Egill sem kveður Brimborg þegar hafa ítrekað kröfu sína um endurgreiðslu lóðarinnar á Esjumelum. Í dag standi krafan í um 205 milljónum króna.

Fyrirtækið Vídd keypti lóð við Vesturlandsveg á árinu 2007 og hefur ekki fengið hana endurgreidda. Árni Yngvason hjá Vídd segir það áleitna spurningu hvort yfirlýsingar borgarlögmanns séu í nafni og þökk borgarstjórnar eða borgarráðs. „Eru yfirlýsingar borgarlögmannsins í samræmi við formlega ákvörðun kjörinna fulltrúa eða ákvað hann sjálfur, upp á eigin spýtur, að virða úrskurði ráðuneytisins að vettugi?“ spyr Árni.

Óskar Bergsson, formaður borgarráðs, segir úrskurð ráðuneytisins væntanlega verða á dagskrá hjá borgarráði á morgun. Þangað til sé ótímabært að ræða málið.

gar@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×